Stofnun úrskurðarnefnda í málefnum neytenda

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 12:24:59 (836)

1995-11-09 12:24:59# 120. lþ. 32.5 fundur 124. mál: #A stofnun úrskurðarnefnda í málefnum neytenda# þál., Flm. VÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[12:24]

Flm. (Vilhjálmur Ingi Árnason):

Herra forseti. Ég fylgi úr hlaði máli á þskj. 140 sem er þáltill. um að ríkisstjórnin skipi tvær úrskurðarnefndir í málefnum neytenda. Flm. auk mín er hv. þm. Ágúst Einarsson. Hér er um að ræða annars vegar nefnd sem fjalli um ágreiningsmál neytenda og opinberra þjónustufyrirtækja og svo hins vegar nefnd sem fjalli um ágreiningsmál neytenda og sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Sá þáttur neytendamálefna, sem þáltill. fjallar um, á sér langa forsögu innan þessara veggja. Áratugir eru síðan tilraunir hófust á Alþingi til að koma málefnum íslenskra neytenda í sambærilegt horf og gerist hjá nágrannaþjóðum okkar en með litlum árangri.

Árið 1974 flutti Bragi Sigurjónsson alþingismaður þingsályktunartillögu um þjónustu héraðsdómstóla við neytendur. Sú tillaga hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu. Í ráðherratíð Vilmundar Gylfasonar var unnið að gerð frv. um málefni neytenda en það frv. kom ekki fram á þingi og ekkert gerðist frekar í málinu. Þannig hafa íslensk stjórnvöld ein stjórnvalda á Norðurlöndum heykst á að auðvelda neytendum aðgang að ódýrum og aðgengilegum valkostum í ágreiningsmálum sínum.

Á sama tíma og áhugi íslenskra stjórnvalda á neytendamálum hefur verið takmarkaður og einkennst af andvaraleysi hefur ríkur skilningur verið á því annars staðar á Norðurlöndum að mikilvægt sé fyrir neytendur að eiga kost á að fá niðurstöðu í ágreiningsmálum sínum við seljendur og veitendur á hraðvirkan og ódýran hátt. Þar hafa stjórnvöld stofnað sérstök embætti umboðsmanna neytenda, komið á fót úrskurðarnefndum, auðveldað aðgengi neytenda og samtaka þeirra að dómstólum og sett sérstaka löggjöf til hagsbóta fyrir neytendur. Hér á landi er eins og við vitum enginn umboðsmaður neytenda og enginn smámáladómstóll og eins og segir í skýrslu frá viðskrn. til EFTA árið 1991 eru í næstu framtíð ekki áformaðar neinar breytingar þar að lútandi.

Afskipti stjórnvalda annars staðar á Norðurlöndum af ágreiningsmálum neytenda og veitenda þjónustu eru víðtæk. Í Svíþjóð og Finnlandi eru starfandi sérstakir umboðsmenn neytenda og úrskurðarnefndir í ýmsum málaflokkum sem kostaðar eru af ríkinu. Í Noregi og Danmörku eru einnig sérstakir umboðsmenn neytenda sem taka upp mál á þeirra vegum.

Vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að koma á smámáladómstól og vegna þess að ég á ekki von á að mikil hugarfarsbreyting hafi átt sér stað meðal íslenskra alþingismanna vil ég leggja til að reynt verði að nálgast vandamálið úr annarri átt en gert hefur verið hingað til. Í stað þess að gera breytingu á réttarfarskerfinu eins og áður hefur verið lagt til er gerð tillaga um ódýra en árangursríka leið úrskurðanefnda. Skipan úrskurðarnefnda er ódýr og árangursrík lausn. Það geta Neytendasamtökin og umbjóðendur þeirra staðfest því vegna aðgerða- og frumkvæðisleysis stjórnvalda hafa samtökin og nokkrir aðilar úr viðskiptalífinu tekið frumkvæðið í sínar eigin hendur og gert með sér samstarfssamninga um starfrækslu nefnda þar sem fjallað er um ágreiningsmál milli neytenda og veitenda. Stjórnvöld hafa síðan verið fengin til að skipa formenn nefndanna þannig að í raun hafa þau með þátttöku sinni viðurkennt þörfina þó þau hafi sjálf skort frumkvæði að stofnun þeirra.

Þessar úrskurðarnefndir hafa í gegnum árin sannað gildi sitt. Þær hafa eins og fyrr segir verið ódýrar í rekstri en þó gegnt því mikilvæga hlutverki að tryggja neytendum réttláta og skjóta úrlausn mála sinna. Það hefur svo aftur á móti minnkað þörfina á að leitað væri til dómstóla með tilheyrandi biðtíma og kostnaði. Nefndirnar hafa þannig sparað dómskerfinu umtalsvert umstang og fjármagn því þótt úrskurðirnir séu ekki bindandi hefur reynslan hérlendis og erlendis sýnt að aðilar hlýta úrskurðum í 70--80% tilfella.

Einhver kann að spyrja: Úr því að þetta gengur svona ljómandi vel nú þegar hvers vegna halda samtök neytenda þá bara ekki áfram á þeirri braut sem þegar hefur verið mörkuð og fá stjórnvöld til samstarfs við sig á síðari stigum? Þá er því til að svara að einmitt þau tvö þjónustusvið sem tillagan fjallar um eru annars eðlis en þau sem fyrir eru. Sérstaklega á það við um viðskipti neytenda við opinber fyrirtæki eins og Póst og síma. Vegna einokunaraðstöðu opinberra þjónustufyrirtækja ber Alþingi siðferðileg skylda til að skapa einfaldan og sanngjarnan vettvang þar sem neytendur geta fengi úrskurð ágreiningsmála sinna gagnvart þessum fyrirtækjum. Þeir úrskurðir og það fordæmi, sem þeir gæfu, mundu áreiðanlega hafa áhrif til efnislegra breytinga á gjaldskrám eins og ungur stjórnmálamaður, Friðrik Sophusson að nafni, barðist fyrir á mörgum þingum fyrir rúmum áratug.

[12:30]

Hvað varðar úrskurðarnefnd í málefnum neytenda og sjálfstætt starfandi sérfræðinga er það til að taka að félög sérfræðinga eru mjög mörg og sundurleit. Ólíklegt verður að telja að rótgrónar sérfræðigreinar eins og t.d. lækna og lögfræðinga séu þess mjög fýsandi að fá yfir sig utanaðkomandi úrskurðarnefnd um ágreiningsefni sinna manna og almennings. Reynslan erlendis hefur sýnt mikla tregðu þessara stétta til að samþykkja nokkuð annað en sínar eigin siða- og samskiptanefndir eða þá hefðbundna dómstóla. Endirinn hefur í sumum löndum orðið sá að hið opinbera hefur fallist á að ágreiningsmál þessara stétta fari fyrst til þeirra eigin siða- og samskiptanefnda. Ef ekki næst samkomulag á þeim vettvangi fer ágreiningsmálið til úrskurðarnefndar eins og tillaga þessi gerir ráð fyrir og síðan til meðferðar í réttarkerfinu ef ekki vill verkast betur.

Rétt er að benda á að hið opinbera hefur nú þegar viðurkennt í raun þann framgangsmáta til sátta án þátttöku dómsvaldsins sem hér er lagður til grundvallar. Á ég þar við lög nr. 84/1995, um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Þó hlutverk úrskurðarnefndar sjómanna sé mun viðameira en þeirra nefnda sem hér er lagt til að stofnaðar verði er hugsunin að baki og framgangsmáti og verklag það sama.

Flutningsmenn telja að úrskurðarnefndir eigi einungis að vera skipaðar þremur fulltrúum hverju sinni þannig að kostnaður og umfang verði í lágmarki. Sá kostnaður sem óhjákvæmilega verður gæti greiðst þannig að neytandinn greiddi málskotsgjald þegar hann kæmi kvörtun á framfæri. Gjaldið gæti í dag verið 5 þús. kr. en það er í samræmi við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Eðlilegt er að ríkið greiði að öllu leyti kostnað vegna opinberra þjónustufyrirtækja en hins vegar verður að telja eðlilegt hvað varðar úrskurðarnefnd vegna sjálfstætt starfandi sérfræðinga að hvert félag greiði kostnað vegna síns fulltrúa og ríkið afganginn. Ástæður þess að ekki er talið rétt að Neytendasamtökin greiði kostnað við störf nefndarinnar er sú að þau eru frjáls áhugamannasamtök, en ekki getur talist eðlilegt að félagsgjöld slíkra samtaka renni til greiðslu kostnaðar við opinbera nefnd sem allir landsmenn eiga aðgang að. Einnig ber að hafa í huga að kostnaður sambærilegra nefnda erlendis er yfirleitt borinn af opinberum aðilum. Í öllum löndum þar sem settar hafa verið á fót úrskurðarnefndir til að fjalla um ágreiningsmál neytenda og veitenda hafa nefndirnar sannað ótvíræða kosti sína.

Í fyrsta lagi auðvelda þær neytendum aðgang að fljótvirkri og ódýrri meðferð ágreiningsmála sinna. Í öðru lagi gera neytendur kröfur sínar gagnvart þjónustuaðilum frekar gildandi þegar aðgengi að úrskurði er auðvelt og ódýrt og í þriðja lagi sparar þessi leið umtalsverð útgjöld í dómskerfinu því mörgum málum sem annars kæmi til kasta dómstóla lýkur hjá úrskurðarnefndunum.

Miðað við þá þróun sem orðið hefur í nágrannalöndum okkar og þá reynslu sem fengist hefur af starfsemi úrskurðarnefnda verður því að telja rétt að stjórnvöld beiti sér með virkum hætti fyrir því að slíkar nefndir verði settar á fót. Hægt er að fullyrða að starfsemi úrskurðarnefnda hafi bæði í för með sér þjóðfélagslegan sparnað og aukið réttlæti.

Herra forseti. Ég legg því til að þáltill. þessari verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.