Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 14:13:58 (837)

1995-11-09 14:13:58# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[14:13]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Hæstv. forseti. Samkvæmt lögum ber forsrh. að gefa Alþingi árlega skýrslu um Byggðastofnun. Slík ákvæði gilda ekki um margar aðrar stofnanir á vegum ríkisins og því er Alþingi betur upplýst um starfsemi þessarar stofnunar en margra annarra. Þetta er í níunda sinn sem slík skýrsla er gerð og fjallar hún aðallega um starfsemi stofnunarinnar árið 1994, en samkvæmt venju verður fjallað nokkuð um starfsemina á þessu ári og horfur til framtíðar.

Á árinu 1994 fékk Byggðastofnun framlag til starfsemi sinnar af fjárlögum sem nam 185 millj. kr. Þessu framlagi er varið til að kosta hluta af rekstri stofnunarinnar sem að öðru leyti er greiddur af vaxtamun á innlánum og útlánum, til styrkveitinga og til að standa að baki áhættu sem fylgir útlánum stofnunarinnar.

Eins og ég hef áður vikið að í fyrri ræðum um ársskýrslu Byggðastofnunar er orðin mikil áherslubreyting í starfseminni þannig að stuðningur við atvinnuþróunarstarf hefur sífellt meira umfang. Reglugerð um Byggðastofnun setur henni mjög ákveðin fjárhagsleg markmið. Henni er ætlað að varðveita raungildi eigin fjár síns þrátt fyrir aðhald í útlánum og ef ráðstafað er í afskriftareikning útlána fyrir hverju nýju láni þarf sífellt að endurmeta stöðu þeirra lána sem úti standa með tilliti til áhættu stofnunarinnar.

Á árinu 1994 tókst Byggðastofnun að standa við þetta fjárhagslega markmið og skila 15 millj. kr. hagnaði. Eigið fé Byggðastofnunar um sl. áramót var 961 millj. kr. og eiginfjárhlutfall hennar samkvæmt svokölluðum BIS-reglum var 13,9% en það má lægst vera 8% eins og kunnugt er. Eigið fé stofnunarinnar jókst um 238 millj. kr. á árinu og þar af um 205 millj. kr. vegna þess að stofnunin yfirtók eignir iðnaðar- og fiskeldishluta Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Sem kunnugt er rann sjávarútvegshluti sjóðsins inn í Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

Lánveitingar Byggðastofnunar námu 596 millj. kr. á árinu 1994 og höfðu þær dregist saman um 131 millj. kr. frá fyrra ári. Útistandandi lán stofnunarinnar í árslok 1994 námu 8 milljörðum og 42 millj. kr. en 8 milljörðum og 306 millj. kr. í upphafi árs.

Stjórn Byggðastofnunar samþykkti styrki að upphæð 73,5 millj. en á árinu námu greiddir styrkir 56 millj. kr. En fjárveitingar til Byggðastofnunar sníða henni stakk í þessum efnum. Atvinnuráðgjafar tóku til sín 43% styrkveitinganna, en til starfsemi þeirra fóru tæpar 24 millj. kr. á árinu 1994. Til átaksverkefna fóru rúmar 5 millj. kr. og tæplega 8 millj. kr. til verkefna í ferðaþjónustu. Til annarra verkefna fóru tæpar 20 millj. kr. og kennir þar að vanda ýmissa grasa.

[14:15]

Byggðastofnun vann eins og endranær að margs konar verkefnum. Meðal þeirra má nefna greinargerð um stöðu sjávarútvegs á Vestfjörðum í samanburði við aðra landshluta. Í kjölfar þeirrar vinnu voru samþykkt lög um aðgerðir til að auka hagræðingu í sjávarútvegi á Vestfjörðum þar sem veittar voru 300 millj. kr. úr ríkissjóði til þessa verkefnis. Sérstakri nefnd var falið að gera tillögur um notkun þess fjár sem varið var til endurskipulagningar í sjávarútvegi. Byggðastofnun fékk til ráðstöfunar 15 millj. kr. til nýsköpunarverkefna á Vestfjörðum. Því fé var úthlutað til 26 mismunandi verkefna allt frá handverki til nýjunga í fiskvinnsluvélum. Flest þessara verkefna hafa heppnast bærilega vel að mati stofnunarinnar.

Á árinu 1994 vann Byggðastofnun einnig úttekt fyrir landbn. Alþingis um stöðu sauðfjárræktar. Meginniðurstaða þeirrar skýrslu var að tekjur þeirra sem stunda sauðfjárrækt hafa dregist saman á undanförnum árum meira en sem nemur samdrætti í framleiðsluheimildum. Þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en af sauðfjárrækt eru mjög tekjulágir. Mikill hluti sauðfjárframleiðenda hefur aftur á móti hluta og jafnvel meginhluta tekna sinna af öðrum atvinnugreinum eða annars konar búrekstri. Hins vegar eru allstór landsvæði þannig að sauðfjárræktin er þar mikilvægasta atvinnugreinin. Þessi svæði eru þau sem eru í mestri hættu þegar draga þarf saman framleiðsluna

Stjórn Byggðastofnunar fjallaði um málefni sauðfjársvæðanna og skilgreindi þau þannig að þar sem sauðfjárrækt teldist yfir fjórðungur ársverka væri sérstakra aðgerða þörf. Undir lok síðasta árs ákvað Alþingi að veita til Byggðastofnunar viðbótarframlag, samtals 70 millj. kr., sem er hluti af því sem ákveðið var í viðauka II við búvörusamning milli bænda og stjórnvalda frá árinu 1991. Þessa fjármuni hefur Byggðastofnun notað á yfirstandandi ári og verður gerð grein fyrir þeim síðar.

Á árinu 1994 samþykkti Alþingi stefnumótandi byggðaáætlun sem þingsályktun. Í framhaldi af því hefur verið unnið að framkvæmd þessarar ályktunar. Verður þinginu gerð nánari grein fyrir stöðu málsins þegar fjallað verður um endurskoðun hennar eins og ég mun koma nánar að hér á eftir.

Á grundvelli þessarar áætlunar fékk Byggðastofnun til ráðstöfunar samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs 210 millj. kr. sem er aukning frá fyrra ári um 25 millj. kr. Stofnunin hefur varið þessum fjármunum í stórum dráttum í samræmi við áætlunina. Byggðastofnun hefur annast fjárhagslegan stuðning við atvinnuráðgjafastarf frá árinu 1992. Hefur stofnunin veitt til þessa verkefnis um 25 millj. kr. á ári en atvinnuráðgjöfin er alls staðar rekin á ábyrgð heimaaðila og hlutur Byggðastofnunar nær hvergi helmingi rekstrarkostnaðar. Til viðbótar þessu hefur stofnunin veitt um og yfir 10 millj. kr. á ári til tímabundinna verkefna, svokallaðra átaksverkefna. Þá hefur Byggðastofnun stutt tímabundið verkefni í ferðaþjónustu, einkum svokölluð stefnumótunarverkefni. Í kjölfar þeirra hafa ýmis héruð ráðið til sín ferðamálaráðgjafa.

Flestir eru sammála um að starfsemi atvinnuráðgjafanna og annað þróunarstarf gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum víðs vegar um landið leiði til nýsköpunar í atvinnulífi. Stuðningur ríkisvaldsins við slík verkefni þarf að nýtast sem best og svara á hverjum stað kröfum tímans. Eins og nú er ástatt eru umfangsmestu vaxtakostirnir í ferðaþjónustunni og því ekki óeðlilegt að reynt sé að verða við mikilli þörf á leiðbeiningu og markaðssetningu þar. Sá stuðningur sem ríkisvaldið veitir þarf að leiða til þess að starfsemin verði nægilega öflug á hverjum stað til að ná árangri. Því er mikilvægt að aukið þróunarstarf verði samræmt.

Að undanförnu hefur verið unnið að athugun á því hvernig Byggðastofnun getur best komið við stuðningi sínum við atvinnuráðgjafarstarf bæði í almennum atvinnurekstri og ferðaþjónustu sérstaklega. Þetta mál snertir hins vegar marga mismunandi aðila.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar mun ég beita mér fyrir þeirri endurskoðun sem þar er boðuð. M.a. er æskilegt að kannað verði hvort skynsamlegt sé að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs njóti faglegrar ráðgjafar Byggðastofnunar við mat á umsóknum um stuðning við atvinnuþróunarverkefni. Styrkveitingar Byggðastofnunar til fyrirtækja og ýmiss konar undirbúningskannana hefur verið vaxandi þáttur í starfsemi hennar. Mikilvægt er að vel sé staðið að undirbúningi nýrra atvinnukosta en enginn vafi er á því að þörf er fyrir aukna fjölbreytni atvinnulífsins hvarvetna á landinu. Hér er þó vissulega úr takmörkuðum fjármunum að spila og því er mikilvægt að stofnunin sinni tilteknum skilgreindum áherslusviðum.

Byggðastofnun hefur skapað sér töluverðar sértekjur með almennri lánastarfsemi sinni og hafa þær að hluta til staðið undir rekstrarkostnaði sem ella hefði þurft að greiða af framlagi á fjárlögum. Sá hluti lánveitinga Byggðastofnunar sem innifelur meira en eðlilega áhættu takmarkast af því fé sem stofnunin fær til að leggja í afskriftareikning áhættulána á hverju ári. Reynslan af því verklagi sem viðhaft hefur verið varðandi afskriftir af reikningi nýrra útlána gefur tilefni til að ætla að hægt sé að halda áfram á þeirri braut sem farin hefur verið.

Herra forseti. Nú líður að því að hefja þarf endurskoðun á stefnumótandi byggðaáætlun. Í samræmi við lög og reglugerð um Byggðastofnun skal þessi áætlun endurskoðuð á tveggja ára fresti. Ljóst er að sum þeirra atriða sem Alþingi ályktaði um í núgildandi áætlun hafa ekki komið til framkvæmda og vitað að sú áhersla sem þar var lögð á samræmingu milli einstakra þátta ríkisvaldsins væri langtímastefnumörkun. Engu að síður er mjög brýnt að þessum þáttum verði sinnt af mikilli kostgæfni.