Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 14:35:18 (839)

1995-11-09 14:35:18# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[14:35]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa skýrslu. Það er mikilvægt að taka störf og afkomu Byggðastofnunar til umræðu hér í þinginu og góður siður. Í kringum þá skýrslu hafa oft spunnist hinar bestu umræður, bæði um hvernig Byggðastofnun skuli standa og hvernig menn skuli standa að málefnum atvinnulífs á landsbyggðinni. Það sem gleður mann þegar maður lítur yfir þessa skýrslu frá 1994 er að hagur stofnunarinnar hefur styrkst á því ári og það er auðvitað mikilvægt. Menn hafa markað Byggðastofnun með stefnu ákveðinn farveg og það sem ég vil velta upp undir þessari umræðu er fyrst og fremst að það blasir við að landsbyggðin þarf kannski fremur nú en nokkru sinni fyrr á því að halda að eiga sterka Byggðastofnun, sterkan lánasjóð sem hjálpar til í atvinnulífi, ekki bara með peningum heldur með þeirri faglegu ráðgjöf sem mér finnst að hafi styrkst mjög í Byggðastofnun á síðustu árum. Þar hefur stofnunin í mínum huga verið á réttri leið. Hitt er svo kannski meira alvörumál að Alþingi hefur skorið af Byggðastofnun fjármagn og við þurfum mjög að huga að því að þessi lánasjóður verði gerður öflugri.

Ég hef séð það í mínu kjördæmi að það hefur skipt sköpum um atvinnuþróun á ýmsum sviðum þar sem Byggðastofnunin hefur komið að verkefnum. Það hefur verið um nýsköpun að ræða, það hefur verið um ný verkefni að ræða sem hafa verið dregin inn í landið, keypt jafnvel erlendis frá. Byggðastofnun er því afar mikilvæg í mínum huga. Hún er ekki einhver grínstofnun sem ber að leggja af og ég vil tala af fullri virðingu um hvort sem það eru hellar sem menn eru að bjástra við að koma inn í t.d. ferðamennskuna eða eitthvað annað. Ég held að Byggðastofnun hafi verið að leggja rækt við eitt í gegnum atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni og það er að skilgreina svæðin og að fram fari gæðastjórnun, má segja, á sem flestum sviðum. Hvert eitt svæði hefur upp á sín sérkenni að bjóða og Byggðastofnun hefur sinnt ferðamennskunni að mínu viti vel og atvinnuráðgjafar héraðanna hafa verið mjög tengdir Byggðastofnun. Hér var minnst á vesturhluta Rangárvallasýslu í sambandi við hella þar. Þeir eru mjög sérkennilegir. Þeir hafa ekki verið á almannaleið. En þeir eru sérkenni þess svæðis. T.d. var farið yfir það mjög hér í umræðu í morgun hve mikla möguleika Vestfirðirnir eiga í ferðaþjónustu miðað við hrikaleik náttúrunnar. Þannig að auðvitað þarf að hugsa um þetta. En það sem ég vil leggja áherslu á hér um leið og ég sé að Byggðastofnun styrkir hag sinn er það að við núverandi aðstæður, hæstv. forsrh., þegar það blasir við að álversdraumurinn er að rætast þá er mikilvægt að huga að því að það er eins og þjóðfélagið sé að vakna af þyrnirósarsvefni. Erlend fjárfesting hefur verið hér sama og engin í 20 ár og við vitum að hið dauða vatn hefur verið kyrrt. Það hefur lítið verið að gerast í landinu af nýjum tækifærum þannig að þetta mun hafa mikil áhrif. Ég sagði í Framsfl. í gær að ég tæki auðvitað ofan höfuðfat mitt og fagnaði því að þessir samningar hafa náðst sem ég tel að skipti mjög miklu máli. Það skiptir máli á svo ótal mörgum sviðum sem við verðum að huga að. Þetta mun eitthvað kalla á hreyfingu fólks í landinu en þetta á líka að kalla á það og þar verðum við að styrkja Byggðastofnun til verka, að hún fái fjármagn og styrk til þess að huga kannski að öðrum málum. Ég er sannfærður um að þessi neisti, sem sýnist nú ekki stór í svipinn, með álverið en það er þó allt önnur staða í þjóðfélaginu og hér skapast fleiri hundruð ný störf, mun hreyfa við atvinnulífinu. Við þurfum að fá það á ferð. Þess vegna er það mikilvægt við þessar aðstæður að menn styrki Byggðastofnun til verka.

Auðvitað þekkir maður sín kjördæmi best og ég get talið upp ótalmörg verkefni sem Byggðastofnun hefur komið að. Ég tel að að sé styrkur Byggðastofnunar og fagleg ráðgjöf og að hún var lánasjóður sem gerði það að verkum að við komum þeim af stað. Ég nefni Alpan á Eyrarbakka. Ég nefni Límtré og Yleiningu. Ég nefni hótel á Kirkjubæjarklaustri. Fyrir utan hina miklu ráðgjöf sem kom í gegnum atvinnufulltrúann og Byggðastofnun við ýmis smærri verkefni í mínu kjördæmi. Þannig getum við farið hringinn í kringum landið. Þetta fyrirtæki hefur skipt máli.

En það sem nú skiptir mestu máli, hæstv. forsrh., finnst mér vera að menn móti nýja byggðastefnu við þessar aðstæður. Ég vil segja bara atvinnuþróunarstefnu. Hvað er það sem atvinnulífið vantar? Auðvitað vantar atvinnulífið fyrst og fremst atvinnulánasjóð. Ef ég horfi til landsbyggðarinnar þá hefur það verið Stofnlánadeild landbúnaðarins sem hefur verið sterkur lánasjóður gagnvart landbúnaðinum. En ef ég tek hina atvinnuvegasjóðina, þá á ég við við Fiskveiðasjóð og Iðnlánasjóð, þá hafa þeir verið okurlánasjóðir. Lánin hafa verið með slíkum kjörum að það er ekkert vit að taka slík lán. Fyrirtæki sem tekur lán á slíkum vöxtum upp á 12--13% raunvexti kemst aldrei upp á fæturna. Þess vegna þurfum við nú þolinmótt fé. Og við þurfum að endurskoða þessi mál í heild sinni gagnvart atvinnulífinu. Við þurfum þolinmótt fé sem gerir það að verkum að fyrirtækin komast upp á fæturna. Hérna er það svo að fyrirtækin eru rétt komin í gang þegar þau eiga að fara að greiða í gegnum banka og þá sjóði sem eru starfandi skuldir sínar margfaldar til baka. Siðaðar þjóðir hafa þetta með öðrum hætti. Og við verðum að móta þá stefnu. Ég er ekki að tala um að Byggðastofnun eigi að fást við nein gæluverkefni, hún á fyrst og fremst að fást við alvöruverkefni. Ég veit að þeir sem stjórna stofnuninni nú vilja að svo sé. Það finnst mér skipta miklu máli. Og vanda sig við valið. Ég tek undir þá skoðun sem kom fram í máli hæstv. forsrh. að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs njóti leiðsagnar Byggðastofnunar í sínu verkefnavali. Ég held að það myndi styrkja þau verkefni og koma í veg fyrir að menn þar séu að láta peninga í það sem litlu eða engu skilar.

En mín ræða undir þessu lið er fyrst og fremst sú að brýna menn við þær aðstæður sem nú blasa við sem betur fer, að marka Byggðastofnun nýjan farveg, annaðhvort með endurskipulagningu lánasjóðanna eða þá með þeirri leið að Byggðastofnun starfi áfram og fái rýmri heimildir til þess að styrkja öflug fyrirtæki og koma þeim í gang vítt og breitt um landsbyggðina. Þetta held ég að skipti miklu máli og gæti verið mikill liður í því að leysa atvinnuleysisvofuna eða reka hana úr landinu.

[14:45]

Ég ætla ekki að fara hér ofan í þá ársskýrslu sem nú kemur okkur fyrir sjónir en ég vænti þess, hæstv. forsrh., að ríkisstjórnin og Alþingi marki sér öfluga stefnu fyrst og fremst í atvinnumálum og ekki síst hvað það varðar að styrkja byggðirnar í landinu við núverandi aðstæður. Eitt verðum við þó að gera okkur grein fyrir að samdrátturinn í landbúnaðinum, sem blasir við, ekki síst í sauðfjárræktinni, mun hafa mikil áhrif. Þess vegna ber okkur að huga að nýjum tækifærum. Ég vona að ríkisstjórninni minni auðnist að marka þá stefnu, nóg hefur hún af atkvæðum hér á Alþingi Íslendinga.