Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 14:46:35 (840)

1995-11-09 14:46:35# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[14:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir orð síðasta ræðumanns varðandi það að það skiptir máli að fá hingað erlenda fjárfestingu og stækkun álversins í Straumsvík verði lyftistöng fyrir allt landið. Hann orðaði það einhvern veginn á þann veg að nú virtist sem landið væri að vakna af dvala. Vel er það ef þessi atburður hleypir krafti í atvinnulífið í landinu og fjárfestingar verða meiri og örari heldur en hefur verið. Hitt er annað mál að það er alveg ljóst að það dettur engin erlend fjárfesting skyndilega inn á borð okkar. Það kemur ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti eða á einhverju fjögurra mánaða tímabili fram að árangur næst í svona máli. Þetta er þrotlaus vinna á erlendum mörkuðum og í samskiptum Íslands og annarra þjóða til þess að við öðlumst sess meðal þeirra landa sem menn vilja fjárfesta í. Það er augljóst mál að það er mjög erfitt fyrir lönd í Vestur-Evrópu að keppa sem fjárfestingarstaðir við mörg þau lönd sem geta boðið ódýrt vinnuafl og eru að draga til sín fjármagn og fjárfesta. Ég vísa þar til Austurlanda sem dæmi um lönd þar sem fjárfestingar eru mestar. Við getum tekið undir það að vilja nýja byggðastefnu og góðan atvinnuþróunarsjóð og það væri fróðlegt að fá nokkra umræðu um það hér hvernig slík byggðastefna ætti þá að vera og til hvers slíkur atvinnuþróunarsjóður ætti að vera. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér var ekki þakklæti efst í huga þegar ég las skýrslu Byggðastofnunar, eins og þeir tveir ræðumenn Framsfl. sem hér hafa talað höfðu á orði. Ég var satt að segja mjög vonsvikin við lestur þessarar skýrslu. Mér finnst hún mjög óburðug, hún gefur mér takmarkað yfirlit yfir hvað þessi mikla stofnun er að gera með þó þessa fjármuni sem hún hefur til ráðstöfunar til að deila út um land og til fyrirtækja og hvaða árangur er af starfi hennar. Ekki það að það sé eitthvað breytt á þessu ári frá því í fyrra eða hittiðfyrra eða árið þar á undan. Málið er bara að ég hef kannski ekki svo mjög tekið þátt í umræðum um verkefni Byggðastofnunar. En nú hugðist ég skoða þetta og gera það og ég er vonsvikin að sjá það sem hér er á blaði. Ég ætla að reyna að færa fyrir því rök.

Í fyrsta lagi eru hér, eins og 2. þm. Vestf. nefndi áðan, upptalningar á verkefnum og styrkveitingum. Þau verkefni sem hann taldi upp gefa einmitt nokkra mynd af því sem verið var að gera. En nokkru aftar í bókinni, á síðu 30--32, er upptalning á styrkveitingum og lánveitingum. Og það er ekki nokkur leið fyrir þann sem ekki þekkir til þessara verkefna frá einhverjum öðrum vettvangi að átta sig á því hvað það var nákvæmlega sem verið var að styrkja og til hvers. Og þetta gildir bæði um útborganir lána og styrkveitingarnar. Með tilliti til þess að byggðastefna og verkefni Byggðastofnunar á að vera afar þýðingarmikill þáttur í okkar atvinnulífi og þess hvernig við dreifum verkefnum okkar um landið og styðjum verkefni út um land miðað við ákveðnar forsendur hreyfi ég því við hæstv. forsrh. hvort ekki eigi að leitast við í slíkri skýrslu að reyna að leggja mat á það hverju styrkveitingar skiluðu. Hverju styrkveitingar undangenginna ára skiluðu í uppbyggingu hér á landi og hvaða dóm má leggja á það að fjármagn var veitt til hinna ýmsu verkefna.

Forsrh. nefndi að atvinnuráðgjafar væru nú víða um land og það kemur fram í skýrslunni að Byggðastofnun tekur þátt í félögunum þegar um hlutafélög er að ræða. Það kom einnig fram hjá hæstv. forsrh. að kostnaðurinn færi aldrei yfir 50%. En hann lagði áherslu á að störf atvinnuráðgjafanna leiddu til nýsköpunar og það er það sem liggur til grundvallar. Það er lagt til grundvallar starfi atvinnuráðgjafa á að þeir reyni að leita leiða til nýsköpunar á hverjum stað en okkur skortir upplýsingar um hvort það tókst. Okkur skortir upplýsingar um hvort verkefni atvinnuráðgjafanna hefur skilað sér og að hvaða marki á sama hátt og okkur skortir upplýsingar um hvort styrkveitingar til ákveðinna verkefna skiluðu sér. Það eru slíkar upplýsingar, slík úttekt frá hverjum stað, sem getur gefið okkur ómetanlegt veganesti til að ákveða byggðastefnu, hvernig við viljum hafa dreifingu styrkja, hvort við eigum að breyta einhverju í skiptingu lánveitinga, styrkja o.s.frv.

Hv. 2. þm. Vestf. nefndi að Byggðastofnun hefði lítið orðið ágengt miðað við uppdrátt af landinu sem sýndi þróunina á tilflutningum fólks frá 1984. Það er líka hlutur sem við eigum að ræða þegar við ræðum um Byggðastofnun. Er það hlutverk Byggðastofnunar að afstýra fólksflutningum hvaðanæva frá? Er það eitthvað sem við höfum ákveðið, að á einhverjum vissum tíma, hvort sem það var 1984 eða eitthvert annað ár, þá sé skiptingin þannig að breytingar megi ekki verða meiri og að Byggðastofnun sé ætlað að afstýra því að þær verði víðtækari? Eða ætlum við Byggðastofnun að reyna að mæta breyttum lífsháttum á hverjum stað og þeim viðhorfum sem gilda heima fyrir hjá þeim sem þar vilja lifa og starfa og bregðast á heilbrigðan hátt við þeim breytingum sem óhjákvæmilega verða í nútímanum innan lands og í samskiptum landsins og útlanda?

Það hlýtur að kveikja spurninguna: Er alveg ljóst að flutningur fólks frá dreifbýli til þéttbýlis hafi ávallt og ef til vill eingöngu verið tengt atvinnu, atvinnumöguleikum, eða atvinnuleysi? Erum við þingmenn tilbúnir til þess að standa hér og ákveða að þannig sé það? Slíkar spurningar vakna við lestur þessarar skýrslu og slíkum spurningum eigum við að reyna að svara hér. Það eru einu möguleikarnir til þess að það fjármagn beri árangur sem við veitum, bæði til lánveitinga sem skipta hundruðum milljóna og til styrkja sem eru nokkrir tugir milljóna.

Varðandi hugsanlega styrki og þróun í gegnum Byggðastofnun og verkefni hennar þá langar mig að koma inn á konur og rekstur smáfyrirtækja. Það eru ekki mjög mörg kvennanöfn í upptalningunni sem er hér á bls. 30--32, en þau eru nokkur. Það er ljóst að haldin var ráðstefna á vegum Byggðastofnunar um konur og rekstur fyrirtækja. Hún er eitt af þeim verkefnum sem fær hérna sérstaka umfjöllun. Þingmönnum til glöggvunar, þá er hún á bls. 10 í skýrslunni. Ég spyr forsrh.: Hefur hann upplýsingar um hvernig sérstök kvennaverkefni sem fengið hafa styrki eða lán hjá Byggðastofnun hafa gengið? Ég spyr sérstaklega vegna skýrslna sem við sem höfum verið að kanna um konur og rekstur fyrirtækja. Í skýrslum frá öðrum löndum kemur ótvírætt fram að reynslan er að konur standa sérstaklega vel að málum þegar þær eru að feta sig af stað með fyrirtæki. Þær fara varlega, þær byrja smátt og eru nokkuð hagsýnar í rekstri. Það er mat að konur standi sérstaklega vel í skilum.

Það var reynt fyrir nokkrum árum að fá því framgengt að sérstakur lánasjóður yrði starfræktur hjá Byggðastofnun sem fyrst og fremst veitti lán og styrki til kvennaverkefna og kvennafyrirtækja. Það náðist ekki fram og var talið að Byggðastofnun myndi að sjálfsögðu skoða slík verkefni og fyrirtæki sem konur reka með opnum huga á sama hátt og önnur fyrirtæki. Í því tilefni vil ég gjarna nefna að Reykjavíkurborg og félmrn. settu á laggir lítinn lánasjóð í fyrra einmitt til að reyna að veita smáfjárhæðir til kvenna sem eru að reyna að fóta sig með lítil fyrirtæki. Enda hafa allir sem fjalla um slík mál talið að það sé mikilvægt að eyrnamerkja slíkan sjóð.

Ég veit að það er ekki mjög vinsælt að tala hér um karla, konur og skiptingu að þessu leyti. En við megum við ekki gleyma því að það er rík hefð fyrir því í þjóðfélögum að fyrirtæki eru karlafyrirtæki. Hins vegar hefur sýnt sig að margar konur hafa reynst afar öflugar og vel samkeppnisfærar í þessum efnum.

Mér finnst miður að hafa misst hæstv. forsrh. úr salnum vegna þess að ég ætla einmitt að bera fram spurningu við hann. Í skýrslunni er smákafli um ráðstefnuna um atvinnuráðgjöf og konur og þar segir að haustið 1994 hafi Byggðastofnun á Egilsstöðum og Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar staðið fyrir fundi um konur og atvinnuþróun. Í henni tóku þátt tólf konur sem allar hafa reynslu af atvinnuráðgjöf og þekkingu á því sviði. Þar er bent á að við stofnun og rekstur fyrirtækja fari konur inn á ný svið og séu að takast á við verkefni sem þær hafa ekki fengist við áður og að reynslan hafi sýnt að konur í atvinnurekstri sem þurfa á ráðgjöf að halda eiga auðveldara með að leita til annarra kvenna og nýta sér sjónarmið og reynslu þeirra. Niðurstöður fundarins voru m.a. að brýnt sé að konur gegni störfum atvinnuráðgjafa til jafns við karla og að kanna skiptingu opinberra styrkveitinga vegna atvinnumála milli karla og kvenna. Mín spurning til hæstv. forsrh. er: Hefur þessu verið fylgt eftir? Hefur verið kannað hvort hægt sé að efla hlut kvenna í störfum atvinnuráðgjafa? Mér er kunnugt um að það var mjög mikill áhugi fyrir því á Austurlandi í fyrra eftir að karlmaður hafði tekið við af konu sem starfað hafði sem atvinnuráðgjafi um skamma hríð. Hópur kvenna reyndi að beita sér fyrir því að fá stuðning við að kona fengi tímabundinn stuðning við það að vera atvinnuráðgjafi og þá sérstaklega meðal þeirra kvenna sem hafa í ríkum mæli þreifað sig áfram með kvennafyrirtæki á Héraði til mikillar fyrirmyndar. Það gekk ekki eftir.

[15:00]

Það er alveg ljóst að það getur þurft að hafa ákveðið frumkvæði eða að minnsta kosti eiga möguleika á að sýna því skilning þegar leitað er eftir því að sérstakir kvennaatvinnuráðgjafar séu styrktir til starfa, jafnvel bara tímabundið. Mér finnst mjög mikilvægt að könnuð sé skipting opinberra styrkveitinga vegna atvinnumála karla og kvenna og ég vona að einhver úr stjórnarliðinu sé tilbúinn til að taka niður þessa spurningu mína ef svo er að forsrh. heyrir hana ekki.

Enn fremur mundi mig langa til að bera fram þá spurningu við forsrh. hvernig hann líti á dreifbýli. Það er vegna þess að þegar við erum að tala um styrkveitingar og lánveitingar Byggðastofnunar er ljóst að þær fara fyrst og fremst út á land, eins og við segjum gjarnan, þó að vissulega finnist þarna ein lína með styrk eða breytingu á láni til aðila í Reykjavík, væntanlega tengt því að viðkomandi hafi verið að taka við verkefni utan af landi. En ég spyr sérstaklega um hvar dreifbýlið byrji vegna þeirrar stöðu að það hafa verið miklir erfiðleikar á Suðurnesjum og þegar litið er yfir lánveitingar og styrkveitingar hafa Suðurnesin aldrei verið með mjög margar línur í þeirri upptalningu og stundum hefur heyrst að þau tilheyri þéttbýlissvæðinu og höfuðborgarsvæðinu. Ég vil gjarnan heyra sjónarmið forsrh. um það. Tilheyra Suðurnesin dreifbýlinu?