Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 15:20:40 (843)

1995-11-09 15:20:40# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[15:20]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að ég hafi fyrst við athugasemdir hennar. Ég vakti einmitt athygli á því að í þessari skýrslu er að finna meiri og gleggri upplýsingar um einstök útlán en við sjáum í skýrslum af því taginu sem berast inn á borð okkar frá sambærilegum útlánsstofnunum og stofnunum sem veita styrki. Það er kjarni málsins og þegar við tölum um það hvort þetta séu nægilegar upplýsingar þá spyr ég: Er þá ekki a.m.k. sanngjarnt gagnvart Byggðastofnun að bera saman skýrslu hennar og aðrar skýrslur sem inn á borð okkar berast og hafa að geyma miklu minni og óljósari upplýsingar um starfsemi slíkra stofnana? Ég er ekki að skorast undan því að hv. þm. eða aðrir sem eftir því óska fái þær upplýsingar sem leitað er eftir. Ég var eingöngu að vekja athygli á því að sú skýrsla sem við ræðum hér er ítarlegri og betur unnin en þær skýrslur almennt sem inn á borð okkar berast af þessu taginu. Varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra og fatlaðra þá nefndi ég þessa sjóði eingöngu vegna þess að þetta eru sjóðir sem fá mikið fé á fjárlögum Alþingis og mér hefur aldrei flogið í hug að það þyrfti að fara fram einhver sérstök umræða um þá. Ég var eingöngu að vekja athygli á því að þannig er þetta. Ef ég hefði óskað eftir slíkum upplýsingum hefði ég væntanlega ekki verið í neinum vandræðum með að fá þær. Ég segi þetta einfaldlega, virðulegi forseti, til að vekja ahygli á því að þarna eru tveir stórir sjóðir sem Alþingi veitir fé til sem við efnum ekki til neinnar sérstakrar umræðu um og ég tel svo sem enga sérstaka ástæðu til þess.