Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 15:25:37 (846)

1995-11-09 15:25:37# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[15:25]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera hér athugasemd við eitt atriði sem fram kom í ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Hann hélt því fram að það hefðu verið gerðar miklar athugasemdir við þá fyrirætlun þáv. umhvrh. að flytja veiðistjóraembættið vegna þess að menn væru andsnúnir því að flytja embættið út á land. Ég vil mótmæla þessu, a.m.k. hvað varðar þær umræður sem urðu hér á Alþingi sl. vetur. Það eru ósannindi að halda því fram varðandi þingmenn og þær umræður sem urðu um þetta mál í þingsölum að það hafi verið vegna andstöðu við að flytja embættið út á land. Þingmanninum er vel kunnugt um að málsatvik voru þau að hæstv. þáv. umhvrh. hafði að mati ýmissa manna á þingi o.fl. óeðlileg afskipti af ýmsum starfsmönnum stofnana sem heyrðu undir embætti hans. Það leiddi til þess að flutt var hér þáltill. um að skipa rannsóknarnefnd til að athuga þetta mál frekar. Ég sat í þeirri þingnefnd sem fékk málið til athugunar, hv. allshn. Eftir að hafa athugað málsatvik og kallað aðila málsins fyrir var niðurstaða okkar fjögurra nefndarmanna, fulltrúa Alþb., Framsfl. og Kvennalista, að full ástæða væri til að rannsaka þetta mál ofan í kjölinn. Hvað mig varðar virtust mér gögnin sýna með verulega óyggjandi hætti að umhvrh. hefði farið langt út fyrir valdsvið sitt og beitt gömlum aðferðum yfirmanns gagnvart undirmönnum. Ég hélt að menn liðu ekki undir lok 20. aldar að menn beittu 19. aldar vinnubrögðum í stjórnarháttum.