Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 16:28:50 (858)

1995-11-09 16:28:50# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[16:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í fáeinum orðum svara hv. 5. þm. Reykn. um þær hugmyndir sem ég hef um hlutverk Byggðastofnunar. Ég held að þær séu í meginatriðum svipaðar og kom fram í ræðu hæstv. forsrh., þ.e. að hlutverk Byggðastofnunar sé í raun þannig að það stjórni byggðaþróun. Í mínum huga er það þannig. Og það sem ég hef séð t.d. varðandi þá áætlun sem gerð var á Suðurnesjum, svokölluð Suðurnesjaáætlun, að þar var stofnað eignarhaldsfélag sem sá um að deila fjármunum til fyrirtækja á Suðurnesjum, þá held ég að það hafi verið gott fyrirkomulag. Ég held að slíkir sjóðir, sem stjórnað er af heimamönnum, séu farsæl lausn á því að úthluta fjármunum þegar um er að ræða að þekkja innviði fyrirtækja og þekkja stofnanir. Í mínum huga hefur það átt að vera og mætti vera hlutverk Byggðastofnunar að styrkja slíka sjóði og einnig að styrkja þær skrifstofur sem Byggðastofnun hefur sett upp úti um land. Ég held að Suðurnesjaáætlunin hafi einmitt skilað Suðurnesjamönnum sérstaklega miklu fyrir það hvað þeir voru sjálfir mikið við það starf allt saman og þáttur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar var náttúrlega gríðarlega mikill í því að fá Íslenska aðalverktaka og fleiri aðila til þess að láta þá áætlun rætast.