Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 16:31:10 (860)

1995-11-09 16:31:10# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[16:31]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar að hann var ósáttur við lánveitingar til Suðurnesja. Hann taldi að þær hefðu í gegnum árin verið of lágar miðað við tilefni. Mig langar því að inna hann nánar eftir rökum fyrir þessari skoðun sinni og spyr hann að því hvað hann leggi til grundvallar. Eins og ég skil verkefni Byggðastofnunar er henni ætlað að reyna að sporna við þróun í byggðamálum sem menn telja óæskilega. Og með því eiga menn fyrst og fremst við breytingu á íbúamynstri, reyna að sporna við fækkun íbúa á tilteknum svæðum með opinberum aðgerðum. Nú er ég ekki vel kunnugur íbúaþróun á Suðurnesjum, það kann að vera að fólki hafi verið að fækka þar. Ég spyr hv. þm.: Er það reyndin að aðstæður þar hafi verið með þeim hætti að rúmast geti innan þessa hlutverks sem Byggðastofnun hefur? Hafi hún mismunað svæðum, finnst mér bæði rétt og skylt að gera athugasemdir við útlánastarfsemina.

Í öðru lagi spyr ég hvort hann sé þá ekki sammála því að um fyrirtæki sem við getum sagt að sé í eigu þjóðarinnar, Íslenskir aðalverktakar, gildi að arðurinn sem ríkið hefur af þeirri starfsemi standi þá allri þjóðinni til boða eftir einhverjum skilgreindum reglum, en sé ekki einvörðungu einkamál Suðurnesjamanna eins og mér hefur fundist að þeir hljóti að telja þegar þeir fá Íslenska aðalverktaka til að blanda sér í aðra atvinnustarfsemi á því svæði.