Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 16:33:38 (861)

1995-11-09 16:33:38# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[16:33]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Á síðasta kjörtímabili ríkti ófremdarástand í byggðaþróun á Suðurnesjum. Mjög dró úr atvinnutækifærum og atvinnuleysi var það mesta sem þekkst hafði í landinu á þeim tíma. Þetta var mjög alvarlegt og okkur fannst að hlutur Suðurnesjamanna í þeim fjármunum sem deilt var um landið væri lítill miðað við þáverandi aðstæður. Okkur fannst hættulegt fyrir íbúana að hafa ekki lífsviðurværi á svæðinu. Ég vil ítreka að mikilvægasta byggðaþróunin er kannski sú að halda stöðugleika í landinu þannig að erlend fjárfesting geti fest hér einhverjar rætur. Kannski getur það stöðvað þá þróun sem orðið hefur á brottflutningi landsmanna til útlanda. Menn ættu líka að átta sig á annarri þróun sem kannski má flokka undir byggðaþróun. Ef við höldum þeim stöðugleika sem náðst hefur, og ég hef trú á að svo verði undir stjórn núverandi ríkisstjórnar, verður brugðist við erfiðari þróun úti á landi samhliða uppbyggingu hér á þessu stóra svæði, höfuðborgarsvæðinu. Og við munum víst seint stjórna því hvernig erlendir fjárfestar vilja fjárfesta hér á landi. Höfuðatriðið er að þeir skuli vilja koma hingað og það mun styrkja alla framtíðarbyggðaþróun í landinu.