Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 16:35:29 (862)

1995-11-09 16:35:29# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[16:35]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór eins og mig grunaði að þingmaðurinn var í raun og veru að tala um allt annað mál en það sem ég tel hlutverk Byggðastofnunar. Hann var að tala um atvinnuleysið og þann vanda sem því fylgir. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál og ástandið er misjafnt eftir svæðum. Við vitum að á Suðurnesjum hefur verið erfitt ástand í þeim efnum. En það er ekki hlutverk Byggðastofnunar að vera með aðgerðir til að sporna sérstaklega við slíku. Þetta er Byggðastofnun og hefur þar af leiðandi annað hlutverk. Það eru aðrir aðilar sem sjá um að bregðast við atvinnuleysinu. Auðvitað væri hægt að breyta skilgreiningu Byggðastofnunar ef menn vildu, þannig að hún tæki á þessu máli og væri ætlað að vera miðstöð aðgerða af opinberri hálfu gegn atvinnuleysi. En þá færi langmest af ráðstöfunarfé stofnunarinnar á annan stað en á Suðurnesin. Það færi til Reykjavíkur því hvergi á landinu er atvinnuleysi meira en þar, bæði að fjölda til og sennilega líka hlutfallslega. Þá er þetta ekki lengur Byggðastofnun heldur einhver aðgerðastofnun gegn atvinnuleysi. Það er allt annað mál. Ég held að þingmaðurinn megi ekki rugla þessu tvennu saman. Hins vegar get ég tekið undir það sem hann sagði í upphafi síns andsvars að það hefði ríkt ófremdarástand í þessum efnum af hálfu ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili. Þar er ég sammála honum og þarf ekki að eyða fleiri orðum til að rökstyðja þau sjónarmið að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. stóð ekki vel að verki að þessu leyti á síðasta kjörtímabili.

Ég vil að lokum árétta það sem ég sagði í lok fyrra andsvars míns varðandi Íslenska aðalverktaka. Ég tel það ekki verkefni stjórnenda Íslenskra aðalverktaka að útdeila arðinum af því fyrirtæki til verkefna á einhverju tilteknu svæði sem í þessu tilviki eru Suðurnes. Þetta er fyrirtæki í eigu þjóðarinnar. Það er þá verkefni ríkisins að ákveða hvernig skuli farið með þann arð og útdeila eftir einhverjum almennum reglum sem menn koma sér saman um. En ég tók eftir því að þingmaðurinn svaraði því engu hvaða skoðun hann hefði á þessu athæfi.