Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 16:38:18 (863)

1995-11-09 16:38:18# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[16:38]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Atvinnuleysi og byggðaþróun, atvinna og byggð. Þetta hlýtur að haldast í hendur og í mínum huga er það þannig. Ef það er engin atvinna, þá er engin byggð. Það hlýtur því að vera hlutverk Byggðastofnunar að reyna að halda uppi atvinnu eins og hún hefur reynt að gera í gegnum árin með alls konar aðgerðum víða úti um land. Þannig skil ég ekki almennilega hvers konar hártoganir þetta eru hjá hv. þm. Ef hann er að tala um það að Byggðastofnun hafi aldrei reynt að styrkja atvinnulífið úti á landi heldur sé það með einhverjum öðrum og óskilgreindum hætti átta ég mig ekki á þeim röksemdum. Og það er algjör mistúlkun að ég hafi sagt að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi ekki staðið sig á síðasta kjörtímabili. Þvert á móti. Ég sagði að ríkisstjórnin hefði einmitt brugðist við þeim vanda sem skapaðist á Suðurnesjum á þeim tíma, eða árunum 1991--1992. Ég held að þar hafi verið brugðist mjög rétt við og á þann hátt sem hefur gagnast svæðinu. Mér sýnist og ég vona að það verði til þess að við náum að byggja það aftur upp og fjölga störfum, sem er brýnt og nauðsynlegt. Það hefur a.m.k. tekist að stöðva þá miklu skriðu atvinnuleysis sem þar var á þeim tíma.