Ókomnar skýrslur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 10:39:18 (869)

1995-11-16 10:39:18# 120. lþ. 33.92 fundur 77#B ókomnar skýrslur# (aths. um störf þingsins), KÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[10:39]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er heldur þunnskipað á ráðherrabekkjum í dag, en engu að síður langar mig að nota þetta tækifæri til að vekja athygli á bréfi sem okkur þingmönnum hefur borist frá Sambandi ísl. sveitarfélaga þar sem fjallað er um fíkniefnavanda sem nú virðist vera að breiðast út um landið og verða æ alvarlegri. Ég minni á að það liggur fyrir beiðni um skýrslu um þessi mál frá þingmönnum sem enn er ekki fram komin. Engu að síður sló það mig mjög að heyra þessa ályktun Sambands ísl. sveitarfélaga og jafnframt viðtalsþátt í útvarpinu þar sem fjallað var um þessi mál og ég hugsaði hvað við værum að gera hér þegar þingfundir falla niður, en á meðan kraumar vandinn úti í samfélaginu og fer vaxandi. Ég hefði viljað inna hæstv. dómsmrh. eftir því hvort við eigum von á þeirri skýrslu sem beðið var um. Jafnframt hvet ég ríkisstjórnina og okkur þingmenn til þess að verða við þessari áskorun, en hér er skorað á Alþingi að herða viðurlög við smygli og sölu á fíkniefnum og efla jafnframt þann þátt löggæslunnar sem sinnir þeim málum. Að vísu er þessi þáttur aðeins hluti af vandanum og það sem ekki snýr síður að okkur sem hér erum er að efla forvarnir, ekki síst í skólakerfinu, og að við opnum augun fyrir því að þetta er mjög vaxandi og alvarlegur vandi í okkar samfélagi sem verður að taka á og þar ættum við að læra af reynslu annarra þjóða.

Ég vildi koma þessu á framfæri, hæstv. forseti, en þar sem hér eru fáir ráðherrar til svara er kannski erfitt að taka þetta mál upp.