Ókomnar skýrslur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 10:41:02 (870)

1995-11-16 10:41:02# 120. lþ. 33.92 fundur 77#B ókomnar skýrslur# (aths. um störf þingsins), fjmrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[10:41]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Í bréfi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga er greint frá þeirri samþykkt sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Nú stendur þannig á að í fyrsta lagi var haldinn ríkisstjórnarfundur á afbrigðilegum tíma vegna fjarveru margra ráðherra síðasta þriðjudag. Honum er rétt að ljúka, en hæstv. dómsmrh. sat ekki þennan fund af því að hann er að ávarpa þing Farmanna- og fiskimannasambandsins sem er haldið um þessar mundir og samkvæmt dagskrá þess þings þurfti hann að sinna embættisskyldu sinni þar. Það er skýringin á því hvers vegna hann er ekki kominn hingað nú.

Í tilefni orða hv. þm. mun ég að sjálfsögðu bera þau skilaboð til hæstv. dómsmrh. Sé um að ræða beiðni um skýrslu eða beðið eftir umræðu um þessi mál, sem eru vissulega mál sem Alþingi þarf að láta sig skipta, þá skal ég koma þeim skilaboðum að þessi umræða hafi farið fram í dag.