Ríkisreikningur 1993

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 10:47:40 (872)

1995-11-16 10:47:40# 120. lþ. 33.5 fundur 128. mál: #A ríkisreikningur 1993# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[10:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1993 sem er 128. mál þessa þings og liggur fyrir á þskj. 153. Frv. er samið eftir ríkisreikningi fyrir árið 1993 sem lagður var fyrir Alþingi með bréfi fjmrh. til forseta Alþingis í október 1994. Í ríkisreikningum undanfarinna ára hefur verið lögð áhersla á að endurmeta ýmsa efnahagsliði ríkisreiknings í áföngum.

Í ríkisreikningi fyrir árið 1993 er í fyrsta sinn beitt þeirri aðferð að leggja fé í afskriftasjóð til að mæta hugsanlega töpuðum kröfum þó að fyrirtæki séu ekki endilega komin í gjaldþrotameðferð. Þetta þýðir að inn í reikninginn koma uppsafnaðar afskriftir margra ára. Af því leiðir að niðurstöðutölur reikningsins endurspegla ekki afkomuna á þessu tiltekna ári, árinu 1993.

Breyttar uppgjörsaðferðir á undanförnum árum fela í sér að niðurstöðurtölur ríkisreiknings gefa ekki nákvæma mynd af afkomu einstakra ára. Þetta þarf að hafa í huga við samanburð á milli ára.

Frumvarpið er samkvæmt venju í þremur greinum. Í 1. gr. eru sýndar niðurstöður rekstrar- og efnahagsreiknings A-hluta ríkissjóðs og í 2. gr. eru með sama hætti sýndar niðurstöðutölur rekstrar- og efnahagsreiknings B-hluta stofnana ríkisins. 3. gr. felur svo í sér gildistökuákvæði laganna.

Niðurstöðutölur ríkisreiknings sýna að rekstrarafkoma A-hluta ríkissjóðs á árinu er neikvæð um rúma 19 milljarða kr. en var árið á undan neikvæð um 10,5 milljarða. Heildartekjur námu 100,1 milljarði og er það lækkun um 5,8 milljarða frá fyrra ári. Heildarútgjöld ríkissjóðs urðu 119,2 milljarðar og er það hækkun um 2,5 milljarða frá fyrra ári.

Lækkun tekna á ríkisreikningi á milli ára skýrist einkum af þremur þáttum. Í fyrsta lagi drógust skatttekjur saman vegna erfiðari stöðu atvinnufyrirtækja og minni atvinnutekna einstaklinga svo og lækkunar á aðflutningsgjöldum. Í öðru lagi námu afskriftir skattkrafna 4,1 milljarði kr. hærri fjárhæð á árinu 1993 en árinu áður, en eins og ég minntist á er hér verið að safna í afskriftasjóð og reyndar verið að afskrifa vegna margra ára en ekki eins árs. Loks voru tekjur af virðisaukaskatti oftaldar um rúmar 1.300 millj. kr. í ríkisreikningi 1992 og eru þær leiðréttar til lækkunar á árinu 1993.

Ef niðurstöður ríkisreiknings eru bornar saman við uppgjör ríkissjóðs á greiðslum ársins eykst halli ríkissjóðs um 9,4 millj. kr., verður rúmir 19 milljarðar í stað 9,6 milljarða kr. í greiðsluuppgjöri. Við reikningsuppgjörið lækkuðu tekjur ríkissjóðs um 3 milljarða kr. en gjöldin hækkuðu um 6,3 milljarða. Mismunurinn skýrist einkum af því að við frágang reikningsins þarf að taka tillit til ýmissa skuldbindinga og afskrifta sem ekki hafa greiðsluhreyfingar í för með sér og koma því ekki fram í greiðsluuppgjöri. Á gjaldahlið skýrist mismunurinn að stórum hluta af því að lífeyrisskuldbindingar umfram lífeyrisgreiðslur ársins 1993 námu 3,5 milljörðum kr. og áfallnir en ógreiddir vextir hækkuðu um 2,3 milljarða.

Varðandi frekari greinargerð um niðurstöðu og framvindu ríkisfjármála á árinu er vísað til skýrslu fjmrh. frá því í febrúar árið 1994 um ríkisfjármálin á árinu 1993 og endurskoðunarskýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 1993.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum leggja til að að lokinni 1. umr. verði frv. þessu vísað til fjárln. og 2. umr.