Ríkisreikningur 1993

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 10:52:13 (873)

1995-11-16 10:52:13# 120. lþ. 33.5 fundur 128. mál: #A ríkisreikningur 1993# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[10:52]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Hér eru til meðferðar á þessum fundi tveir ríkisreikningar, þ.e. bæði fyrir árið 1993 og 1994. Hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir reikningnum fyrir árið 1993 og í sjálfu sér sætir það ekki miklum tíðindum að öðru leyti en því að það er kannski vert að vekja athygli hv. þm. á því að samkvæmt niðurstöðunum þá eru gjöld umfram tekjur í þessum ríkisreikningi 19 milljarðar kr. Það er nú alveg sæmileg tala, hæstv. forseti. Satt best að segja finnst mér stundum að umræðan um ríkisreikninginn fái í rauninni of litla athygli, t.d. miðað við þá umræðu sem oft fer fram um fjárlögin þar sem menn reyna að stilla hlutina af upp á millimetra, upp á þúsundir eða 100 þús. króna eða stakar milljónir. En svo kemur ríkisreikningurinn yfirleitt einu, tveimur árum síðar og þá kemur í ljós hver ríkisreksturinn í raun og veru var á viðkomandi ári. Á árinu 1993 var hann þannig í ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. að hann skilaði halla upp á 20 milljarða kr. Ég man satt að segja ekki eftir öllu innblásnari ræðum um ríkisfjármál en frá hv. form. Alþfl. Það er satt að segja alveg hrikalegt að horfa á þessar tölur miðað við þær ræður og full ástæða að velta því fyrir sér hverju það sætir að staðan er í raun og veru svona, að vandi ríkissjóðs birtist okkur með þessum hætti.

Í sjálfu sér er það ekki efni umræðu og ástæðulaust að ræða það undir þessum lið hvernig vandi ríkissjóðs er í heild vegna þess að hér er auðvitað fyrst og fremst um það að ræða að verið er að staðfesta eða synja ríkisreikningnum sem slíkum. En í sjálfu sér eru hér engu að síður afskaplega alvarlegir hlutir á ferðinni og þetta er kannski ekki síst alvarlegt, hæstv. forseti, vegna þess að það liggur fyrir að það er ekki enn þá búið að afgreiða ríkisreikninginn fyrir árið 1991. Af hverju ætli það sé? Ætli það sé vegna þess að þar sé um að ræða einhverjar samlagningarskekkjur eða ágreining um aðferð við útreikning milli Ríkisendurskoðunar og fjmrn. eða þingsins og ráðuneytisins? Nei, svo er ekki. Ástæðan er sú að Ríkisendurskoðun hefur viljað færa hlutina allt öðruvísi en fjmrn. hefur viljað fallast á. Það hefur verið uppi um árabil, eða allt frá árinu 1992, verulegur ágreiningur. Og reyndar miklu lengur. En þetta er elsti reikningurinn sem liggur hér. Það er því í rauninni alveg ótrúlegt að hæstv. fjmrh. sem nú er að byrja sitt annað kjörtímabil, vonandi verða þau ekki fleiri, hefur ekki enn fengið Alþingi til að afgreiða fyrsta ríkisreikninginn frá árinu 1991. Það er nokkuð athyglisvert. Það er vegna þess að það er uppi ágreiningur milli Ríkisendurskoðunar og fjmrn., annars vegar um færslu á skuldbindingum Framkvæmdasjóðs og hins vegar um færslu á fjármunum vegna Sandgerðishafnar, ef ég man rétt. Þar eru sem sagt uppi deilur og þær hafa ekki verið settar niður enn þá. Spurningin er þá sú: Stendur Alþingi þannig að málum eins og því frv. sem hér liggur fyrir að það verði að samþykkja frv.? Er í raun ekkert hægt að gera? Er Alþingi stillt upp við vegg þannig að það geti ekki annað en lagt blessun sína yfir hvert einasta orð sem stendur í þessum texta? Þannig er það ekki. Ég vek athygli hv. þingmanna á því, og alveg sérstaklega þeirra sem eru í fjárln., að þeir geta breytt þessu. Það eru fordæmi fyrir því að fjárln. hafi að hluta til talið nauðsynlegt að breyta ríkisreikningsuppsetningunni eins og gerð hefur verið tillaga um af hálfu fjmrn. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hv. Alþingi og þá sérstaklega hv. fjárln. að gera sér grein fyrir því að það þarf að aga fjmrn. í þessum efnum.

Fjmrn. fer oft fram með miklum gassagangi í málum af þessu tagi og það er nauðsynlegt að Alþingi geri sér grein fyrir því, og þá sérstaklega fjárln., að hún er fullburðug gagnvart fjmrn. að því er þessa hluti varðar. Fjmrn. vill eins og kunnugt er alltaf ráða yfir því sem gerist hér í þessari stofnun þegar kemur að fjárlögum, ekki síst fjárln. Fjmrn. hefur haft tilhneigingu til þess að líta á fjárln. sem sína undirnefnd, helst sem starfsnefnd á vegum fjmrn., og hafa komið af því undarlegar fréttir í blöðum í seinni tíð, eins menn vita. En veruleikinn er engu að síður sá að fjárln. er sjálfstæð, jafnvel gagnvart hans hátign, hæstv. fjmrh. Það er nú hvorki meira né minna en svo. Mér finnst því að hv. fjárlaganefndarmenn þurfi að átta sig á að það er heldur að þyngjast í þeim pundið, að þeir hafa þetta vald. Þeir gætu jafnvel ákveðið að breyta tilteknum hlutum í niðurstöðum ríkisreiknings.

Það er mín skoðun, hæstv. forseti, að það sé alveg óhjákvæmilegt að gera það að því er varðar ríkisreikninginn 1991. Vegna þess að það er auðvitað ekki nokkur mynd á því að afgreiða hann eins og fjmrn. hefur verið með kröfur um árum saman, en Alþingi hefur í raun og veru neitað að fallast á óskir fjmrn. í þessu efni. Spurningin er hvort þetta þing sem nú situr er þannig á sig komið að það muni láta fjmrn. segja sér fyrir verkum, sem fyrri þing hafa ekki gert. Og hverjir hafa stöðvað þá afgreiðslu? Það var aðallega hv. þm. Pálmi Jónsson, þingmaður Sjálfstfl., sem situr ekki lengur í þessari virðulegu stofnun.

Þetta vildi ég nefna, hæstv. forseti, vegna þess að það er óhjákvæmilegt að menn geri sér grein fyrir því að hér er um að ræða mál sem þessi stofnun, Alþingi, getur auðvitað tekið á með sjálfstæðum hætti og fjárln. á að taka á með sjálfstæðum hætti. Ég spyr t.d. hvort hugsanlegt sé að fjárln. eyði of litlum tíma í að fjalla um ríkisreikninginn. Er það þannig, ég spyr þar sem ég þekki það ekki, að fjárln. fari yfir ríkisreikninginn með hliðsjón af fjárlögum viðkomandi árs, lið fyrir lið? Er það þannig þegar ríkisreikningsfrv. kemur fram að þá fari fjárln. yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga á því ári sem um er að ræða?

[11:00]

Staðreyndin er auðvitað sú, hæstv. forseti, að það er algjörlega gagnslaust að leggja þessi mál fyrir með þeim hætti sem oft hefur verið gert hér, nema farið sé mjög nákvæmlega í saumana á því hvernig að þessum málum er staðið og hvernig á því stendur t.d að þessi ríkisreikningur sýnir allt aðrar tölur í öllum liðum en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Það var m.a. afbrigðilega slæmt árið 1993 að því er þetta varðar vegna þess að þá voru menn í fyrsta lagi með flatan niðurskurð að einhverju leyti og síðan voru menn að dreifa honum út til stofnana í gegnum ráðuneytin eftir ákvörðun ráðherra hverju sinni án þess að Alþingi gæti fylgst neitt með því. Hér var því afbrigðilega illa að hlutunum staðið að því er varðar stjórn ríkisfjármála sem sést aðallega á því að skuldir ríkisins aukast á árinu 1993 um nærri 20 þús. millj. kr., hæstv. forseti.