Ríkisreikningur 1993

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:04:33 (875)

1995-11-16 11:04:33# 120. lþ. 33.5 fundur 128. mál: #A ríkisreikningur 1993# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:04]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. talaði mest í sinni ræðu um reikninginn 1991 sem var til umræðu um daginn og er þegar farinn til hv. fjárln. Ég vil rifja það upp fyrir hv. þm., ef hann skyldi vera búinn að gleyma því, að hv. nefnd afgreiddi það frv. frá sér á sínum tíma með sama hætti og fjmrn. hafði gert ráð fyrir þótt endanleg afgreiðsla þingsins hefði ekki átt sér stað. En ég tek undir með honum að það er nauðsynlegt að fá afgreiðslu eldri reikninga sem allra fyrst. Sem betur fer hefur þetta verið að lagast í seinni tíð og er aldrei betra en nú þegar staðið er þannig að málum að reikningar koma inn miklu fyrr en áður tíðkaðist.

Vegna umræðna um greiðslugrunn og reikningsgrunn skal það tekið fram að svokallað fjárreiðufrv. hefur verið kynnt, bæði hv. fjárln. og eins hv. efh.- og viðskn., og það er unnið að því að koma því frv. fram hér á þingi og þá geta menn leikið sér áfram að umræðum um slíkt.

Ég ítreka það síðan vegna orða hv. þm. að á árinu 1993 eru teknar inn afskriftir margra ára sem breytir auðvitað niðurstöðutölunum. Ef það á að kallast eitthvert stórkostlega sérstakt ár af því að það framkallist tæplega 20 milljarða halli, minni ég á að stærsta breytingin var gerð á árinu 1989 þegar skuldbindingar voru teknar inn í ríkisreikning og hann færður á svokallaðan reikningsgrunn. Þá kom fram halli á því eina ári upp á 80 milljarða og engum, jafnvel ekki hugmyndaauðugum mönnum á borð við hv. þm., datt í hug að tala um það sem halla eins árs þegar safnað var saman skuldbindingum fjölmargra ára vegna Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna.