Ríkisreikningur 1993

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:05:54 (876)

1995-11-16 11:05:54# 120. lþ. 33.5 fundur 128. mál: #A ríkisreikningur 1993# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:05]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál er því miður ekki í sjálfu sér spurning um hugmyndaauðgi. Þetta er erfiðara og alvarlegra en svo. Veruleikinn er auðvitað þannig að hallinn á ríkissjóði þetta árið nam gríðarlegum fjárhæðum og samkvæmt niðurstöðum ríkisreiknings er hallinn á árinu 1993 19 milljarðar kr. Auðvitað er hluti skýringarinnar sá sem hæstv. ráðherra nefndi, en heldur ekki meira, vegna þess að t.d. á árinu 1992, ef ég tek næsta ár á undan sem er fyrsta heila árið í tíð núv. hæstv. fjmrh., þá var hallinn á ríkissjóði 10,6 milljarðar kr. Þannig að það þýðir ekkert fyrir hann að ætla sér að neita að horfast í augu við þann veruleika að ríkissjóðshallinn hefur verið viðvarandi vandi hér alla hans ráðherratíð. Og hvað sem líður tæknilegri uppfærslu mála, þá er það í raun og veru aukaatriði að því er þessa hluti varðar.

En það er hins vegar mikilvægt að það komi fram og verði ítrekað út af ræðu hv. formanns fjárln. að reikningurinn fyrir 1993 er verri en aðrir reikningar að því er varðar uppsetningu og samanburðarhæfni fjárlaga annars vegar og ríkisreiknings hins vegar. Í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1993 kemur þetta t.d. fram á bls. 20, með leyfi forseta:

,,Í ríkisreikningi fyrir árið 1993 kveður svo rammt að þessum færslum milli fjárlagaliða að fjárlög ársins 1993 eru ekki lengur skráð sem grunngagn í flestum samanburðaryfirlitum reikningsins, heldur svokallaðar ,,fjárheimildir``.``

Á bls. 20 í þessu skjali eru nefndir sjö liðir þangað sem fjármunir eru sóttir til þess að setja inn á og rökstyðja ákveðna útgjaldaþætti ríkissjóðs, en fjárlögin sem slík eru óbrúklegt stjórntæki árið 1993, eins og fram kemur í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings. Það er þess vegna sem reikningurinn fyrir árið 1993 verður að fá mun alvarlegri umræðu í hv. fjárln. heldur en mér fannst hæstv. fjmrh. gefa í skyn áðan þegar hann talaði um þetta eins og þetta væri hvert annað rútínuplagg sem ætti að vera hægt að hrista í gegn á stuttum tíma.