Ríkisreikningur 1993

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:11:34 (878)

1995-11-16 11:11:34# 120. lþ. 33.5 fundur 128. mál: #A ríkisreikningur 1993# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:11]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. fjmrh. sagði áðan að árið 1993 er mjög afbrigðilegt hvað þessa hluti varðar. Það var sem sagt að því leytinu til afbrigðilegt að við lokameðferð fjárlaganna voru tekin út úr gjaldahliðinni nokkur prósent, ég man ekki alveg hver talan var, ég held að hún hafi verið 3--4%, og síðan var henni dreift á einstaka stofnanir eftir ákvörðun ráðherranna en Alþingi kom aldrei nálægt því. Í rauninni hefði verið hægt að segja í þessari stofnun í lokasetningu fjárlaganna fyrir árið 1993: Alþingi samþykkir þetta frv. að 95%. Restinni ræður framkvæmdarvaldið. Ég er satt að segja sannfærður um að Alþingi hefur aldrei lagst eins lágt í afgreiðslu fjárlaga og að því er varðar þetta frv. fyrir árið 1993 þar sem ráðherrunum var ætlað að sáldra út upphæðum án þess að Alþingi kæmi þar nálægt.

Vera má að hæstv. ráðherrar geti gert þetta vel og þeim sé treystandi. Staðreyndin er hins vegar sú að það er mjög dregið í efa að það hafi í öllum tilvikum verið rétt að því staðið af hæstv. ráðherrum að setja peninga til einstakra stofnana hvort sem það var á vegum menntmrn. eða heilbrrn. Og ég held að það væri líka fróðlegt fyrir fjárln. að fara yfir það á hvaða faglegum forsendum þessum prósentum var úthlutað. Það er væntanlega alveg útilokað að það hafi einhvern tíma gerst á þeim forsendum að menn hafi þar verið að fylgja sínum eigin pólitísku hagsmunum í viðkomandi kjördæmum. Það getur auðvitað ekki verið að það hafi nokkru sinni gerst --- eða hvað, hæstv. forseti? En freistingin var fyrir hendi. Það er ljóst.