Ríkisreikningur 1994

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:34:45 (884)

1995-11-16 11:34:45# 120. lþ. 33.6 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:34]

Svavar Gestsson (andsvar):

Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör. Ég held að það sé mjög mikilvægt að frv. sjáist sem fyrst og ég ítreka að hér er um að ræða mál sem á að haga þannig að Alþingi komi allt að flutningi þess ef mögulegt er. Þannig var það með þetta frv. sem var lengi að velkjast í fjárveitinganefnd og strandaði aftur og aftur að það kom að því fulltrúar allra flokka, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, og ég held að þetta mál sé af því tagi að stjórnandstaðan eigi að setja sig inn í það áður en það er lagt fram og velta því fyrir sér hvort hún geti orðið aðili að því. Eitt af því sem þarf að skoða í þessu sambandi er hvernig þingið fer með ríkisreikninga. Hvernig fjallar þingið um ríkisreikninga? Ætlar þingið framvegis að fjalla um ríkisreikninga með þeim hætti sem við gerum hér eða ætlar þingið að fjalla um ríkisreikninga á einhvern annan hátt? Tekin hefur verið ákvörðun um það að yfirskoðunarmenn ríkisreikninga verði ekki til lengur með þeim hætti sem þeir hafa verið samkvæmt ákvæðum í stjórnarskrá. Það var niðurstaða þeirra sem hafa gegnt þessu starfi um nokkurt árabil að við töldum að ástæðulaust væri að hafa það gamla stjórnarskrárákvæði inn í. En það breytir ekki því að það þarf að setja eitthvað í staðinn vegna þess að þrátt fyrir allt þarf fjmrn. aðhald. Þess vegna tel ég að eðlilegt væri að það kæmi inn í umræður um þetta frv. um fjárreiður ríkisins hvernig Alþingi fjallar um ríkisreikning og hvaða aðhaldsþáttur kemur inn í myndina í staðinn fyrir yfirskoðunarmenn ríkisreiknings.