Ríkisreikningur 1994

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:36:41 (885)

1995-11-16 11:36:41# 120. lþ. 33.6 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:36]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta mikið og hef í sjálfu sér ekkert að athuga við athugasemdir hv. þm. En þar sem hann ræddi nokkuð um stöðu ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar vil ég geta þess að ekki er gert ráð fyrir verulegum breytingum hvað þetta varðar í sjálfu fjárreiðufrv. en ég hygg að öllum sé ljóst að Alþingi þarf að breyta starfsháttum sínum. Ég vek athygli á því að í löndum eins og Noregi þar sem hafa verið gerðar samsvarandi stjórnskipunarlagabreytingar og hér og yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hafa verið lagðir af hefur verið sett upp sérstök nefnd sem þar er kölluð kontrol komité og er henni ætlað að taka álit Ríkisendurskoðunar fyrir og jafnvel að gefa út nefndarálit um málið. Þannig er skilið á milli eftirlitshlutverks þingsins annars vegar og síðan fjárlagameðferðar þingsins því það er auðvitað alveg óeðlilegt að fjárlaganefndin sé að fást við það að hafa síðan eftirlit með sjálfri sér. Þetta hefur verið leyst þannig þar og ég býst við því að það verði leyst með svipuðum hætti hér á landi. Ég hef spurt hæstv. forseta að því og mér skilst að hugmyndin sé að leita einhverra slíkra lausna enda er óþolandi að fá skýrslur sem enginn veit hvað á að gera við og er hent inn á borð þingmanna, hvort sem það er skýrsla um ríkisreikning eða eitthvað frá Ríkisendurskoðun. Það er eðlilegt að taka upp nútímaleg vinnubrögð, fara skipulagsbundið ofan í þessar skýrslur og það komi fram álit frá þingnefnd sem sé hægt að ræða í þingi eins og hvert annað þingmál. Þetta er mjög mikilvægt. Hins vegar varðandi fjárreiðufrv. skal ég taka það fram að hugmyndin er sú að sérstök þingnefnd samkvæmt þingsköpum fái það frv. til meðferðar þannig að því verði ekki vísað til fastanefnda þingsins heldur til sérstakrar nefndar og það verður mál sem þá verður rætt þegar það kemur fram.

Að allra síðustu held ég að það sé ekkert óeðlilegt að frv. sé flutt sem stjórnarfrv. En ég ítreka enn og aftur. að frv. hefur verið kynnt mjög vel fyrir þeim aðilum sem þetta mál snertir sérstaklega í þingstörfum og þingnefndastörfum.