Ríkisreikningur 1994

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:45:06 (888)

1995-11-16 11:45:06# 120. lþ. 33.6 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:45]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Aðalatriði þessa máls er sennilega það að eftir þá breytingu við undirbúning fjárlagafrv. sem felst í því að vinna á grundvelli rammafjárlaga, þá eru það pólitískar ákvarðanir í ríkisstjórn sem gera svokallaða útgjaldaráðherra eða útgjaldafrek ráðuneyti samábyrg um framkvæmd fjárlagastefnunnar. Ég er sammála því að þessi breyting hefur verið til bóta. Mér kemur ekkert á óvart þótt hæstv. fjmrh. beri mönnum misjafnlega söguna því sannleikurinn er sá að hefðin í íslenskum vinnubrögðum í stjórnkerfinu við undirbúning fjárlaga var togstreita annars vegar milli fulltrúa einsemdarinnar, hæstv. fjmrh., við ábyrgðarlausa útgjaldaráðherra. Þessu hefur verið reynt að breyta með því að gera útgjaldaráðherrana samábyrga. Það sem ég var að segja er einfaldlega það að við þetta hefur staða fjmrh. í ríkisstjórnum breyst. Ábyrgð útgjaldaráðherranna er meiri en hún var áður. A.m.k. er það svo að forminu til. Hitt er svo annað mál að margir þeirra nota þær aðferðir að flytja sýndartillögur um sparnað sem þeir vita að hafa jafnvel ekki stuðning í eigin þingflokki. Þannig að oft og tíðum er þetta meira að nafninu til en í reynd. Þar með undirstrika ég, og það er gott að þetta upplýsist hér því þetta er breyting á vinnubrögðum í stjórnkerfinu, að fjmrh. mun ekki veita af því að fá aukinn stuðning, ekki aðeins í sínum eigin þingflokki sem sannarlega var á ögurstundum tæpur ef nokkur, heldur einnig frá samstarfsflokki og reyndar frá stjórnarandstöðu ef hún meinar eitthvað með því að hún hafi þungar áhyggjur af óheillaþróun í ríkisfjármálum og vilji stuðla að því að koma böndum á þá útgjaldaþróun.

Auðvitað eru eftir hin pólitísku átök um stefnumótun, um forgangsröðun, hvar eigi að spara. Ég nefni sem dæmi menn í flokki hæstv. fjmrh. sem hafa, hver á fætur öðrum, verið að birta að undanförnu tillögur um sparnað í ríkisrekstri. Það hafa ungir sjálfstæðismenn gert og þeir hafa jafnvel reynt að setja upp klukku sem tifar á hæstv. fjmrh. um skuldaaukninguna frá degi til dags. Aðrir innan Sjálfstfl. hafa verið að leggja fram opinberar tillögur um sparnað, um að skera niður fitulag, þar sem þeir hafa m.a. fyrst og fremst einbeitt sér að þeim ráðuneytum sem eru undir pólitísku forræði ráðherra Sjálfstfl. og hafa raunverulega verið að vísa til þess að það hafi verið gengið lengra á undanförnum árum í sparnaðartilraunum, t.d. á sviði heilbrrn., heldur en þar. Engu að síður er það svo að hæstv. fjmrh., sem ég fullyrði að hefur jákvæða afstöðu til þessara tillagna, gerir ekkert í því að framfylgja þeim. Og hvers vegna? Mín skýring er sú að hann hafi engan stuðning í þingflokki sínum við slíkar tillögur.