Ríkisreikningur 1994

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:48:34 (889)

1995-11-16 11:48:34# 120. lþ. 33.6 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:48]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp aftur eingöngu til að þakka hv. þm. fyrir góð orð og góðan stuðning á sínum tíma. Ég held að margt af því sem kom fram í hans máli sé bæði satt og rétt. Ég viðurkenni gjarnan að það er stundum vandamál þegar fjallað er um rammafjárlög að vega það og meta hvort framkomnar tillögur séu raunhæfar eða ekki þegar þær koma til viðkomandi þingflokka. Ég hugsa að það eigi við um báða þá þingflokka sem áttu aðild að síðustu ríkisstjórn. Þetta vandamál verður ætíð uppi og til að ná tökum á þessu þarf auðvitað gott samstarf á milli stjórnarflokka og einstakra ráðherra sem starfa í ríkisstjórn. Ég get tekið heils hugar undir með honum þegar hann ræðir um nauðsyn þess að takast á við ríkisfjármálin á annan veg en áður. Þegar hann var t.d. fjmrh. í ríkisstjórn, sem ég sat reyndar einnig í, var aðferðin allt önnur. Þá voru öll ráðuneytin í baráttunni við fjmrn. allt árið og fjmrn. stóð eitt. Þetta hefur breyst og ég er sammála honum um það að aðferðin er góð þótt enn vanti kannski á að stuðningurinn sé ætíð nægur. Þingflokkur sjálfstæðismanna er að breytast og stundum koma inn varamenn sem eru til þess vísir að takast á við þessi mál. Ég sé að hér í salnum er eldri bróðir hv. þm. og ég vænti þess að þeir ræði a.m.k. þetta mál á fjölskyldufundum. Þannig ætti hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson a.m.k. að hafa einhver áhrif í þessa átt í gegnum fjölskylduna og inn í þingflokk sjálfstæðismanna. Ég þakka honum að öðru leyti skilninginn á minni stöðu og stuðninginn yfir höfuð.