Tryggingagjald

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 13:08:33 (906)

1995-11-16 13:08:33# 120. lþ. 33.7 fundur 134. mál: #A tryggingagjald# (atvinnutryggingagjald o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[13:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá atriði. Ég mæli með því að nefndin kanni textann í 2. mgr. og fjalli einnig um Vinnueftirlitið, ég hef ekkert á móti því. En áhrifin í frv. eru eingöngu þau gagnvart fyrirtækjunum að þau greiða 0,5 prósentustig til viðbótar því sem nú er greitt. Það kom fram í ræðu eins hv. þm. áðan að hlutföllin eru núna, ef ég man rétt, 3,21 og 6,51, en það er verið að skipta gjaldinu upp þannig að 1,5% gengur beint til Atvinnuleysistryggingasjóðs og allt að 0,08% til Vinnueftirlits ríkisins, en síðan er gerð sú breyting á núgildandi lögum að nú má fjármagna jöfnum höndum lífeyris- og slysatryggingarnar eftir reglugerð sem fjmrh. setur, en hingað til hefur það verið skilið þannig að lögin hafi bundið framlögin og stundum hefur því myndast inneign og skuldir á milli þessara tveggja deilda sem hefur þurft að leiðrétta.

Þetta frv. þýðir, þegar áhrifin eru komin að fullu til skila, um það bil einn milljarð sem ætti að styrkja stöðu ríkissjóðs á ári. En þau koma ekki að fullu til skila á næsta ári vegna þess að fjárlögin eru á greiðslugrunni. Hvað persónuafsláttinn varðar mun ég svara því síðar, en á viðkomandi vinnuskjali sem vitnað var til, þarf að leggja upphæðina sem um er að ræða saman til að fá rétta niðurstöðu. En ég mun geta komið að því síðar.