Skattskylda innlánsstofnana

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 13:41:41 (907)

1995-11-16 13:41:41# 120. lþ. 33.8 fundur 135. mál: #A skattskylda innlánsstofnana# (Iðnþróunarsjóður) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[13:41]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 48/1992, um breyting á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, með síðari breytingum. Frv. þetta er 135. mál þingsins og er á þskj. 161.

Í frv., sem er afar einfalt, er lagt til að frestað verði gildistöku ákvæða laganna að því er varðar skattskyldu Iðnþróunarsjóðs. Forsaga málsins er sú að með lögum nr. 48/1992 voru opinberir fjárfestingarlánasjóðir gerðir skattskyldir. Sérregla var þó í lögunum að því er varðaði Iðnþróunarsjóð þar sem gert var ráð fyrir að skattskylda hans kæmi til framkvæmda síðar, þ.e. á árinu 1995. Þetta er byggt á þeirri forsendu að fyrirheit hafi verið gefin allt frá því að Iðnþróunarsjóður var settur á laggirnar fyrir 25 árum að hann yrði ekki skattlagður fyrr en stofnfé hinna Norðurlandanna hefði að fullu verið endurgreitt. Í samræmi við þetta var tekjuskattur og eignarskattur lagður á Iðnþróunarsjóð við álagninguna í ár.

Í ljósi þess að endurgreiðslu stofnfjár lauk ekki fyrr en 8. mars sl. þykir eðlilegt með vísan til framangreindra forsendna að ákvæðum laganna verði breytt á þann veg að upphæð skattskyldu miðist við þetta tímamark, þ.e. þegar sjóðurinn komst að fullu í eigu íslenska ríkisins.

Að svo mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.