Bifreiðagjald

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 13:49:54 (910)

1995-11-16 13:49:54# 120. lþ. 33.10 fundur 137. mál: #A bifreiðagjald# (upphæð gjalds og ákvörðun þess) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[13:49]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér reyndar ekki hljóðs til að tala beinlínis um bifreiðagjöldin sem slík, sem fjmrh. hefur rakið hér. En ég kýs að koma með fyrirspurn til fjmrh. undir þessum málaflokki

Ríkisstjórnin hefur gefið mynd af því að ætla sér að leggja mikla áherslu á forvarnir. Forvarnir, sérstaklega í heilbrigðiskerfinu, sem skila sér í lægri heilbrigðisútgjöldum. Reyndar hefur ekki sést mjög mikið af þeirri framkvæmd né hvernig hún er hugsuð en við hljótum að vænta þess að þau mál eigi eftir að koma til umræðu á Alþingi. Hins vegar er það svo varðandi útgjöld vegna bifreiðamála að hér hefur ekki verið skoðað að endurgreiða eða lækka kostnað vegna atriða í bifreiðum sem hafa mjög mikið forvarnagildi og eiga vissulega möguleika á því að spara stórlega í heilbrigðisþjónustunni. Þar á ég t.d. við líknarbelg sem er belgur sem blæs upp við árekstur og afstýrir því að fólk hendist í mælaborðið og öryggisbremsukerfi sem læsa ekki öllum hjólum.

Ég kem hér upp vegna þess að ég hef fengið upplýsingar um það hjá Bílgreinasambandinu að bæði Danir, Norðmenn og Finnar endurgreiða kostnað vegna þessa öryggisbúnaðar, sé hann settur í bifreiðar. Danir endurgreiða um níu þús. danskar krónur vegna bifreiðar sem er með líknarbelg og sjö þús. ef bifreið er með sérstakt bremsukerfi sem læsir ekki hjólunum. Það er litið svo á að kostnaður við þessi öryggisatriði í bifreið hér á landi mundi vera u.þ.b. 120 þús. í innkaupum og mun reyndar vera það sama í Danmörku. Það er ekki tekið tillit til þessa hér af hálfu stjórnvalda og þess vegna er enginn hvati til þess hjá innflytjendum né bifreiðaeigendum að fá sér þennan öryggisbúnað í bifreiðar til að afstýra vá ef til áreksturs kemur. Mér er sagt að forsenda Dana, Norðmanna og Finna fyrir áróðrinum sem þeir reka fyrir þessu máli og stuðningnum sem þeir veita við að fólk kaupi bíla með þessum útbúnaði sé sú að bíll sem er með þessi öryggistæki spari umtalsverðar fjárhæðir í ríkisrekstri, og þá sérstaklega í heilbrigðiskerfinu.

Danir segja t.d. sem svo að maður sé strax kominn í 10.000 danskar kr. í útgjöldum um leið og einhver lendir á skurðarborðinu vegna andlitsskaða. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna að meta hvað heilbrigðiskerfið þarf að greiða til að koma sjúklingi í fyrra horf við slys af þessu tagi. Miðað við það sem ég hef skoðað í þessu máli hefði ég talið að það væri mikið þjóðþrifamál að fella niður aðflutningsgjöld og tolla, eins og gert er við hjálma og öryggisbelti. Þetta eiga að vera hin sjálfsögðu öryggistæki í bifreiðum. Forvarnir eru, eins og ég hef áður sagt, fleira en það að fá fólk til að hætta að reykja. Það væri áhugavert að fá að vita hversu margir hafa slasast hér á landi við að skella í mælaborð og á stýri. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvenær ætlar ríkisstjórnin að byrja á sínum forvarnaaðgerðum? Hefur það verið skoðað að þáttur í þeim forvörnum sem rætt er um verði einmitt þetta, að koma til móts við þennan sterka öryggisþátt? Hefur fjmrh. skoðað að fella niður gjöld í innkaupum á þessum mikilvægu tækjum?