Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 13:58:14 (913)

1995-11-16 13:58:14# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[13:58]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem er að finna á þskj. 174 en er 147. mál þingsins. Það eru nokkur atriði sem ég vildi nefna almennt um þær breytingar sem verið er að gera á skattalögum í tengslum við umræðuna um þetta frv.

Í fyrsta lagi ber að minna á að á síðasta þingi breytti hv. Alþingi tekjuskattslögunum með þeim hætti að hægt er að draga lífeyrisiðgjald launþega frá skatti. Þessi aðgerð er viðamikil og kostnaðarsöm en var gerð vegna þess að talið var að um forsendur fyrir kjarasamningi á milli ASÍ og VSÍ væri að ræða í febrúar á sl. ári. Í raun og veru má segja að ASÍ hafi gert kröfu til þess að þessi aðferð yrði notuð og hún kæmi í stað þeirrar sem þáv. ríkisstjórn hafði lagt til og fengið samþykkta fyrr á því sama þingi. Sú aðferð fólst í því að þeir sem fengju greitt úr lífeyrissjóðum gætu dregið 15% frá þeim tekjum áður en til skatts kæmi.

[14:00]

Í öðru lagi er verið að gera þær breytingar á skattalögum nú í haust að afnema sjálfvirkni eða sjálfvirka tengingu skatta, útgjalda, afsláttar- og bótagreiðslna við verð- eða launavísitölu.

Í þriðja lagi er áformað að treysta fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs en um það mál var fjallað í morgun þegar rætt var um breytingar á lögum um tryggingagjald.

Loks skal þess getið að starfandi er nefnd allra þingflokka og aðila vinnumarkaðarins á vegum fjmrn. sem er að freista þess að gera tillögu um það að tekinn verði upp fjármagnstekjuskattur. Nefndin hefur ekki enn lokið störfum en gera má ráð fyrir að hún geri það síðar í þessum mánuði. Ekki er hægt að búast við að ríkisstjórnin leggi fram tillögur á grundvelli starfs nefndarinnar eða sjálfstæðar tillögur sem taki gildi fyrr en annaðhvort seint á næsta ári eða um áramótin 1996--1997. Ræðst það af starfi nefndarinnar og því hvernig til tekst að því loknu.

Talið er að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda, sem ég minntist á áðan, leiði til 1.600 kr. tekjulækkunar til ríkissjóðs þegar breytingin hefur að fullu átt sér stað. En heildaráhrifin koma fyrst fram á árinu 1998.

Ríkisstjórnin áskildi sér með mjög skýrum hætti við lausn kjarasamninganna í febrúar sl. að skera niður eða afla tekna til að standa straum af þeim kostnaði sem ríkissjóður verður fyrir þegar skattar lækka með þeim hætti sem þar er gert ráð fyrir. Tekjuöflunin er fyrst og fremst með tvennum hætti. Annars vegar er um að ræða tryggingagjald sem gefur á ársgrunni þegar heildaráhrifin eru komin fram 1 milljarð kr. og síðan sá tekjuauki sem hlýst af þessu frv. en gera má ráð fyrir því að ríkissjóður fái um 500 millj. kr. nettó þegar heildaráhrifin eru komin fram. Ríkissjóður mun hagnast um 1 milljarð brúttó vegna frystingar á ýmsum bótaþáttum frv. en á móti kemur að ætlunin er innan skattkerfisins að draga úr jaðaráhrifum barnafjölskyldna með þeim hætti að verja til þess u.þ.b. 500 millj. kr., eða helmingnum af því sem fæst inn. Þetta þýðir að heildaráhrif þessara frumvarpa, þ.e. þegar tekið er tillit til tekjuskattsins vegna frystingarinnar og tryggingagjaldsins, verði um 1.500 millj. kr. en eins og ég sagði áðan verða heildaráhrif þess að lífeyrisiðgjöld verða skattfrjáls um 1.600 millj. kr. þegar upp er staðið. Fyrsta árið mun þó ríkissjóður hagnast nokkuð á tilfærslunni allri eða um 300 millj. kr. Á næsta ári þar á eftir, árinu 1997, 100 millj. kr. En þess ber þá að geta að á yfirstandandi ári mun ríkissjóður tapa um 600 millj. kr. tekjum vegna fyrstu breytinga sem hafa orðið vegna skattfrelsis lífeyrisiðgjalda.

Í greinargerð með þessu frv. er farið mjög vandlega í gegnum þær breytingar sem gerðar eru á tekjuskattslögunum. Í fyrsta lagi er fjallað um afnám sjálfvirkrar verðuppfærslu. Þá er skýrt hvernig staðið verður að frystingu bóta- og afsláttarfjárhæða en það sama mun gilda um bætur í bótakerfi, bæði almannatryggingakerfinu og eins í atvinnuleysistryggingakerfinu. Með sama hætti er fjallað nokkuð ítarlega um áhrif breytinga í barnabótakerfinu en breytingar sem verið er að gera í þessu frv. eru tvíþættar. Annars vegar er verið að lækka hlutfall skerðingar með börnum almennt en síðan er málum þannig komið fyrir að hámarksskerðing verður 15% sama hve börnin verða mörg. Þetta er kannski fyrsta skrefið af nokkrum sem þarf að taka á næstu árum til að draga úr jaðaráhrifum þess þegar um er að ræða samspil annars vegar skattkerfisins og hins vegar bótakerfisins. Það kemur í ljós og kannski á það fyrst of fremst við um ákveðna kynslóð hér á landi sem sumir gætu greint að væru einstaklingar á aldrinum 25--40 ára. Þeir þurfa nú að sætta sig við skattkerfi og bótakerfi, endurgreiðslur á námslánum, með þeim hætti að við hverja nýja krónu sem þeir afla sér þurfa þeir að sætta sig við að ríkið eða aðrir aðilar taki til sín verulegan hluta fjárins. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að setja niður nefnd með aðilum vinnumarkaðarins til að freista þess að draga úr þessum jaðaráhrifum og koma í veg fyrir að fólk hætti hreinlega ekki við að vinna þegar það á kost á því en leggi þess í stað árar í bát og reyni frekar að lifa á ýmiss konar bótum til að koma í veg fyrir að hækkandi tekjur skerði bótaréttinn. Svona gildrur eru alþekktar og voru þekktastar fyrir nokkrum árum á Norðurlöndum, einkum og sér í lagi í Svíþjóð, en einnig í Danmörku, Noregi og Finnlandi og hafa leitt til þess að ríkisstjórnir þessara landa hafa á undanförnum árum breytt skattalögum hjá sér til að koma í veg fyrir óheppilegar afleiðingar þessara jaðaráhrifa.

Ég ætla ekki að fara ítarlega út í einkenni íslenska skattkerfisins en það einkennist auðvitað fyrst og fremst af háum persónuafslætti, háum skatthlutföllum sem leiðir síðan til þess að skattgreiðendur í hópi framteljenda eru mjög fáir og ég hygg að einungis þriðji hver framteljandi greiði í raun skatta. Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir að 42% hlutfall sé almenna hlutfallið í skattkerfinu og talið er að fram taldar tekjur landsmanna séu um 220 milljarðar kr. fær ríkissjóður í sinn hlut einungis um 16 milljarða kr. Sveitarsjóðirnir fá um 18 milljarða kr., sem þýðir að 34 milljarðar af 220 milljarða stofni skila sér til þessara aðila vegna þess hve skattkerfið er örlátt á bætur og afslætti. Það er kannski einfaldast að skýra þetta með dæmi á þann veg að það mætti lækka skatthlutfallið í u.þ.b. 17% og það gæti gefið sömu tekjur til ríkis og sveitarfélaga ef engin jöfnun væri til í skattkerfinu, engin, og öll laun væru skattlögð eins. Hægt væri að lækka hlutfallið úr 42% í 17%. En þá má ekki gleyma því að skattkerfið hér á landi þjónar þeim tilgangi að færa tekjur og lífskjör á milli aðila í mjög stórum stíl og svo stórum að nú er svo komið að meira að segja fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og þeirra sem oftast tala fyrir félagslegum umbótum eru farnir að kvarta undan því þegar skattkerfið er mikið notað í þessa áttina með alls konar bótum og tekjutengdum bótum og skerðingum með auknum tekjum. Þetta er vissulega athyglisvert og ég tek undir það með þeim sem segja að full ástæða sé til þess að endurskoða skattkerfið með tilliti til þessa og kanna hvort ekki sé hægt að breyta því þannig að fólk með venjulegar almennar tekjur þurfi ekki að hafa áhyggjur af því þegar það bætir við sig vinnu vegna þess að það tapi ýmsum bótarétti.

Ekki þarf að taka fram að enn aukast vandræði þessa fólks þegar endurgreiðslur sjóða eins og Lánasjóðs íslenskra námsmanna er með þeim hætti að þar er tekið tillit til tekna og verður það oft á tíðum til þess að endurgreiðslurnar verða afar þungar í skauti. Einnig liggur í hlutarins eðli að þetta háa hlutfall, þessir miklu afslættir, þessar tekjutengdu bætur leiða allar til þess að það er meiri freisting en ella í skattkerfi okkar að afla tekna sem eru ekki gefnar upp til skatts. Þegar allt þetta kemur saman hljótum við að verða sammála um það, a.m.k. flest hver, að það þurfi að endurskoða allt tekjuskattskerfið með tilliti til þessa.

Ég vil taka það strax fram af því að það hefur verið nokkuð til umræðu að þegar við vegum saman þær breytingar sem hafa verið gerðar á skattkerfinu á sl. vetri og þær breytingar sem hér er verið að leggja til, þ.e. breytingin sem varð og fólst í því að hægt var að draga frá tekjum áður en skattur var lagður á lífeyrisiðgjöld launamanna, og sú breyting sem hér er verið að leggja til, þá er niðurstaðan sú að skattleysismörkin hækka heldur meira en þau hefðu gert ella ef þau hefðu fylgt vísitölu. Þetta eru nokkur hundruð króna og sést náttúrlega best á því að í raun og veru lækka tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga nokkuð við þessar breytingar en ríkissjóður vinnur það síðan upp með því að leggja á aukið tryggingagjald. Þetta þarf að koma hér skýrt fram í framsöguræðunni.

Í frv. er gert ráð fyrir því að hátekjuskattur verði framlengdur um eitt ár. Stjórnarflokkunum þótti eðlilegt að skoða hátekjuskattinn sem er kannski naktasta fyrirbrigðið um tekjutengingu í skattkerfinu ásamt öðrum þáttum sem snúa að jaðaráhrifum skattkerfisins. Þess vegna er þessum skatti fram haldið um eins árs skeið. Þá vil ég minna á að í frv. er gert ráð fyrir rýmri afskriftareglum bifreiða en verið hafa. Á sínum tíma var ákveðið að kaupverð bifreiða færðist á framtal einstaklinga en lækkaði ekki í tímans rás. Út af fyrir sig skipti þetta ekki miklu máli því verðbólgan sá um að lækka stofninn. Nú er hins vegar svo komið að verðbólga hér á landi mælist með því minnsta í heiminum. Þessa stundina er talið að verðbólgan sé 1,8% eða innan við 2%. Þetta leiðir til þess að verðfærsla á bifreiðum á skattframtölum einstaklinga verður of há miðað við almennar afskriftareglur. Til að koma til móts við þetta er ákveðið í þessu frv. að heimila þeim sem eiga bifreiðar að lækka þær um 10% á ári. Síðan er gerð sú undanþága að bifreiðar sem eru eins til tveggja ára gamlar fá til að byrja með meiri lækkun eða allt upp í 25%. Þetta hefur ekki mikla þýðingu nema fyrir þá sem greiða eignarskatta en þeir eru ekki margir hér á landi.

[14:15]

Ef litið er til einstakra greina frv. þá er í 1. gr. fjallað um takmarkaða skattskyldu vegna útleigu á vinnuafli. Hér er verið að samræma það sem kemur yfirleitt fram í tvísköttunarsamningum við ákvæði tekjuskattslaganna. Til að nefna sérstakt dæmi um þetta þá hefur það gerst að menn hafa verið ráðnir á íslensk loftför í gegnum aðila erlendis og síðan kemur í ljós að þeir greiða ekki skatta hér á landi og kannski ekki í öðrum löndum heldur. Til að tryggja að þeir greiði skatta eins og aðrir þeir sem vinna sambærileg störf á íslenskum loftförum er gripið til þessa ráðs og það er auðvitað ekki miðað við loftför eingöngu heldur er verið að stilla saman tvísköttunarsamningana og ákvæði í tekjuskattslögunum.

Í öðru lagi er verið að taka af skarið með eignir manna sem búsettir eru erlendis. Það hefur verið sett það skilyrði í lögunum sem gilda nú að eignirnar þurfi að vera arðgefandi en nú er þessu breytt verði þetta frv. samþykkt þannig að það skiptir ekki máli hvort eignin ber arð, það skal greiða af henni skatta jafnvel þó eigandinn sé búsettur í öðru landi.

Þeir aðilar sem búsettir eru erlendis, sem munu koma til með að greiða eignarskatt hér á landi vegna hins nýja ákvæðis, gætu m.a. vegna ákvæða í tvísköttunarsamningum heimalands þeirra við Ísland hafa þurft að greiða eignarskatt til heimalandsins, einmitt á þeim grundvelli að skattinum væri ekki til að dreifa hér á landi. Þannig breytti hin nýja skipan óverulega skattlagningu hjá slíkum aðilum. Einhver tekjuauki verður af þessu en hann hefur ekki verið reiknaður enda er gert ráð fyrir að hann verði hverfandi lítill því örfá dæmi eru um þessa tilhögun sem hér hefur verið lýst.

Í 2. gr. frv. er einungis verið að ræða fjárhæðir.

Í 3. gr. er verið að falla frá 15% reglunni sem ég minntist á fyrr í mínu máli en lífeyrisþegar hafa haft möguleika á um eins árs skeið að draga 15% frá tekjum úr lífeyrissjóðum áður en til skattlagningar kemur. Nú er þessu breytt, að vísu ekki á einu ári heldur tveimur, 7,5% á því næsta og síðan hverfur þessi frádráttur á því þarnæsta enda er alveg út í hött að hvorttveggja sé dregið frá lífeyrisiðgjaldi þeirra þegar greitt er inn í lífeyrissjóðina og eins þegar tekið er úr þeim. Það gengur ekki. Í b-, c-, d- og e-lið þessarar greinar er fjallað um fjárhæðir.

Í 4. gr. er fjallað um fjárhæðir í persónu- og sjómannaafslætti.

Í 5. gr. er fjallað um fjárhæðir sem varðar bótaákvæði laganna en í c-lið 5. gr. er verið að lagfæra skekkju sem kom fram í meðförum þingsins á sínum tíma. Hér er verið að fjalla um skuldajöfnun á móti barnabótum og gera breytingar á ákvæðum án þess að um efnislegar breytingar sé að ræða, heldur að samræma orðalag um skuldajöfnun annars vegar milli barnabóta og hins vegar vaxtabóta. Í e-lið 5. gr. er fjallað um barnabótaauka og jaðarskattana sem ég minntist á áður og þarf ég ekki að endurtaka það. Kostnaður vegna þessara breytinga verður 500 millj. kr. og kemur fyrst og fremst barnafólki með meðaltekjur til góða. Breytingin kemur þó fyrst og fremst til með að hafa áhrif á þá sem eiga þrjú börn eða fleiri. Í h-lið 5. gr. er fjallað um framsetningu tekjutengingar vaxtabóta. Hér er heldur ekki um efnisbreytingu að ræða heldur fyrst og fremst orðalagsbreytingu þar sem fjallað er um þetta tiltekna atriði. Þetta er nokkuð flókið mál og ég bið hv. nefnd um að kynna sér það rækilega því ekki er meiningin að gera neina efnisbreytingu.

Í 6. gr. er fjallað um niðurfærslu bifreiðarverðs sem ég hef áður fjallað um, 10% árlega, en í bráðabirgðaákvæði er regla sem nær til eins og tveggja ára bifreiða.

Í 7. og 8. gr. er fjallað um fjárhæðir eignarskatts.

Í 9. gr. er gerð lítils háttar breyting þar sem orðið ,,skriflega`` er fellt út úr lögunum en hugmyndin er sú að hægt sé að skila inn til skattstjóra gögnum á því formi sem skattstjóri telur nauðsynlegt en það þurfi ekki að vera skriflegt, gæti t.d. verið á diski svo að tekið sé dæmi af nýjustu tækni.

Ekki þarf að orðlengja um 10. gr. Þar er aðeins verið að breyta nafnnúmeri yfir í kennitölu.

Í 11. og 12. gr. er verið að fjalla um málsmeðferð hjá skattstjóra og hugmyndin að þessum breytingum er sú að gera leiðirnar styttri og ekki eins flóknar og verið hefur og ætti það að koma fyrst og fremst skattgreiðendum til góða og án þess þó að skerða réttaröryggi og skilvirkni í skattkerfinu. Þetta eru atriði sem ég bið nefndina einnig um að kanna. Þetta hefur ekki með tekjur ríkissjóðs að gera en er tilraun til þess að fækka úrskurðum og gera kerfið skilvirkara.

Í 13. gr. er fjallað um skuldajöfnun við álagningu. Hér er líka um hreinsibúnað kerfisins að ræða. Það gerist stundum þegar greiddar eru út bætur 1. ágúst að smáupphæðir sitja eftir í skatti, þeim er ekki skuldajafnað heldur dreift kannski nokkrum tugum eða hundruðum kr. á næstu mánuði. Hér er verið að setja mörk til að koma í veg fyrir að verulegum fjármunum sé eytt í að senda út litla fjármuni til skattgreiðenda.

Í 14. gr. er verið að gera lagfæringu. Á sínum tíma var hugmynd að gera meiri breytingar en urðu í raun. Þingið féllst ekki á allar breytingartillögur sem komu í frv. í fyrra en hins vegar gleymdist að taka út ranga lagatilvísun og það er gert í 14. gr. frv.

Í 15. gr. er verðuppfærsla fjárhæða afnumin en ég bendi á að þarna er enn farin sú leið sem ég minntist á áðan í öðru viðfangi en hún er sú að verði um mismun að ræða, annaðhvort myndist skuld eða inneign, verði 2,5% álag sem komi í staðinn fyrir verðbætur samkvæmt lánskjaravísitölu í núgildandi löggjöf.

Í 16. gr. er verið að afnema skattvísitölu. Hún er felld niður af sömu sjónarmiðum og ég hef verið að tala um. Sjónarmiðið er auðvitað það að nú þegar verðbólga er hér á landi ekki meiri en annars staðar er óþarfi að hafa skattareglur hér með þeim hætti að allar upphæðir færist upp sjálfvirkt. Í reynd stríðir það nokkuð gegn þeim hugmyndum sem koma til að mynda fram í nýjum stjórnarskrárákvæðum þar sem enn eru lagðar meiri skorður við framseljanleika skatta til framkvæmdarvaldsins.

Í 18. gr. eru bráðabirgðaákvæði I, II og III. Það er svokallaður hátekjuskattur eða sérstakur tekjuskattur manna eins og hann heitir og hefur heitið nokkuð lengi. Það er ekki til aðgreiningar frá dýrum heldur frá fyrirtækjum. Þá er það bráðabirgðaákvæði IV. Þar er um að ræða niðurfærslu eldri bifreiða sem ég hef þegar rætt og loks bráðabirgðaákvæði V þar sem fjallað er um frádrátt sem lífeyrisþegar hafa fengið vegna lífeyris sem þeir fá greiddan úr lífeyrissjóðum þar sem verið er að trappa þetta niður á tveimur árum þannig að frádrátturinn verði 7,5% á næsta ári en hverfi út á árinu 1997.

Virðulegi forseti. Nokkuð var rætt um það fyrr í dag þegar önnur tekjufrv. voru til umræðu að það skorti nægilega greinargóðar upplýsingar um tekjuáhrif þessara frumvarpa. Ég bendi hv. nefndarmönnum á að afla þeirra upplýsinga sem þeir vilja hjá fjmrn. og öðrum aðilum sem geta gefið slíkar upplýsingar. Ég hef talið saman þær breytingar sem verða vegna skattfrelsis lífeyrisiðgjaldanna annars vegar og svo hækkunar tryggingagjalds og breytingar á tekjuskattinum hins vegar og má segja að á árinu 1996 græði ríkissjóður um 300 millj. á þessum breytingum. Á árinu 1997 100 millj., tapi 100 millj. árið 1998 og á þeim árum sem koma eftir það verði ekki aðrar breytingar á tekjuskattslögunum. En ég er ekki kominn hingað til að lofa því að ekki verði hreyft við þessum lögum á komandi árum.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta hafi skýrt meginatriðin í þessu frv. og legg til að lokinni umræðunni verði málið sent til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.