Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 14:48:41 (915)

1995-11-16 14:48:41# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[14:48]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv., Jóni Baldvini Hannibalssyni, var tíðrætt um stóra gatið sem hann nefndi svo, fjármagnstekjuskattinn. Ég vil ekki deila á menn fyrir liðinn tíma. Við höfum ákveðna stöðu í dag og hún er ekki sérstaklega glæsileg hvað varðar skattlagningu á fjármagnstekjur.

Í fyrsta lagi er húsaleiga skattskyld að fullu umfram 25 þús. kr. á mánuði. Arður er skattskyldur tvöfalt ef hann er rúmlega 100 þús. kr. hjá einstaklingi og umfram 10% hjá fyrirtæki. Ef hann er undir báðum mörkunum er hann einskattaður eða ekkert skattaður. Söluhagnaður er skattlagður að fullu án frádráttar ef um er að ræða söluhagnað af eignum öðrum en íbúðarhúsnæði. Skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum er sérstaklega skaðleg fyrir atvinnulífið vegna þess að gengi hlutabréfa ýmist hækkar og lækkar og þegar það hækkar vill ríkið vera með, ef menn selja það eftir hækkun, en þegar það lækkar, sem gerist jafnoft, er ríkið ekki með. Menn geta ekki dregið tapið frá þannig að þetta ákvæði skattalaga stöðvar öll viðskipti með hlutabréf.

Vextir eru skattlagðir hjá fyrirtækjum að fullu og án frádráttar en skattfrjálsir hjá einstaklingum og það er það sem menn horfa mest á. Þegar eignarskattar voru hækkaðir mjög myndarlega um árið var það gert í ljósi þess að engir skattar væru á vexti þannig að það er samhengi milli eignarskatta og fjármagnstekjuskatta. Við búum við ótrúlega fjölbreytta skattlagningu á fjármagnstekjum sem virðast hafa það markmið að beina mönnum frá atvinnulífinu inn í íbúðarhúsnæði og alveg sérstaklega þaðan inn til ríkisins og þetta verður að stöðva. Það verður að koma samræmd skattlagning þannig að mönnum sé ekki refsað fyrir að fjárfesta í atvinnulífinu og ekki beint inn til ríkisins. Ég vil taka það fram að ég er í þeirri nefnd sem er að vinna að því að koma samræmingu á fjármagnstekjuskattinn.