Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 14:53:15 (917)

1995-11-16 14:53:15# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[14:53]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil minna hv. 9. þm. Reykv., Jón Baldvin Hannibalsson, á það að þingmenn eru eingöngu bundnir sannfæringu sinni. Sem slíkur hef ég þá skoðun á þessu máli að ef hægt er að koma á samræmingu á fjármagnstekjuskatt, sem hættir að beina fjármagni frá atvinnulífinu til ríkissjóðs, gæti ég hugsanlega samþykkt tillögur sem komu frá nefndinni. Þær tillögur eru alls ekki fullmótaðar. Í ljósi þessara varnagla og þess sem ég hef haft efasemdir um, þ.e. að fjármagnstekjuskattur, sérstaklega á vexti, kunni að valda bæði fjárflótta, minni sparnaði og hækkun á vöxtum en það kæmi illa við atvinnulífið og sérstaklega skuldara, þá er ekkert sjálfgefið að menn taki upp fjármagnstekjuskatt á vexti. Menn hafa í nefndinni miklar efasemdir um það og mikið hefur verið rætt einmitt um þann þátt hvaða áhrif skattlagningin á vexti muni hafa á sparnað í landinu og á fjárflótta til útlanda og á upphæð vaxta. Hvort vextir kunna að hækka en það kemur þá í bakið á skuldurum.