Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:02:15 (929)

1995-11-16 16:02:15# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:02]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt til í því að verðbólgan fór illa með vilja fólks til að spara. Fólk sem nú er komið vel við aldur vandist því að leggja til hliðar og eiga fyrir sínum elliárum og þetta hefur breyst. Mér finnst ekki óeðlilegt að ætla að verðbólgan hafi haft sín áhrif á að breyta þessum viðhorfum. En ég hygg að þar komi fleira til, t.d. almenn neysla sem mjög hefur verið alið á undanfarin ár og áratugi og er enn að færast í aukana. Við sjáum sem dæmi að hagvexti á þessu ári er meira og minna haldið uppi af eyðslu. Menn eru að eyða peningum sem þeir eiga ekki til að kaupa innflutta vöru. Þetta er uppistaðan í íslenskum hagvexti á þessu ári. Ég hygg að við hv. þm. Pétur Blöndal séum báðir sammála um að þarna séu menn að halda uppi hagvexti á fölskum forsendum. Hins vegar er ég á þeirri skoðun að þau sjónarmið sem ráða því að fólk taki upp ráðdeild, sem við getum kallað, og sparnað eru flóknari en svo að þau verði skýrð einvörðungu með þeim atriðum sem þingmaðurinn nefndi. Ég hygg að það að taka upp fjármagnstekjuskatt, í líkingu við það sem ríkisstjórnin lýsti yfir að yrði gert 1994, hafi ekki nein merkjanleg áhrif á það hvort menn spara eða ekki. Ég hygg að sanngirnissjónarmið ráði verulega miklu. Fólk áttar sig á því að það er ekki sanngjarnt að það skipti svona miklu máli hvort teknanna er aflað með því að selja vinnuafl sitt eða með því að leigja peninga sína.