Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:06:36 (931)

1995-11-16 16:06:36# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:06]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kýs að svara þessu í andsvari. Í fyrsta lagi tel ég að það komi til skoðunar að breyta sjómannaafslættinum og stýra honum þá a.m.k. fyrst og fremst til þeirra sem eru mjög lengi fjarri heimilum sínum, á fjarlægum miðum eða á millilandaskipum. Ég efast samt um að það sé meiri hluti á hinu háa Alþingi fyrir róttækum breytingum á þessu nú. Annað sem ég vil nefna og er ástæðan fyrir því að ég kem hér upp í andsvari er það, að hv. þm. hefur greinilega alveg gjörsamlega misskilið þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Það er verið að tala um að barnabótaaukinn breytist með þeim hætti að í raun og veru kostar það ríkissjóð 500 millj. Í þessu frv. er verið að veita meiri fjármuni, eða sem nemur hálfum milljarði, til barnafólks. Það er það sem þetta frv. gengur út á. Það er gert með þeim hætti að barnabæturnar eru ekki skertar eins mikið og í núgildandi lögum og aldrei skertar meira en 15%. Hv. þm. virðist með öðrum orðum hafa misskilið þessa hluti gjörsamlega. Ég vil að þetta komi strax fram þannig að ekki dragist að leiðrétta þetta.