Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:08:19 (932)

1995-11-16 16:08:19# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:08]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Satt að segja finnst mér þessi umræða um afnám sjálfvirkni óskaplega skrýtin og í raun og veru snúa málinu á haus. Afnám sjálfvirkni gagnvart hverju og fyrir hvern? Staðreyndin er sú að þær breytingar sem hér eru á ferðinni fela í sér að það er verið að tryggja ríkissjóði öryggi og öðrum hins vegar öryggisleysi. Ég mun rökstyðja það nokkru nánar þegar ég fæ betra tóm til þess, hæstv. forseti.

Ég ætla aðeins að fara yfir þetta sjálfvirknital. Hvað er það? Hvað er í raun og veru að gerast samkvæmt þessu frv.? Það er verið að festa skattfrádrátt, barnabætur, persónuafslátt og annan slíkan frádrátt við fasta lögbundna krónutölu sem verður ekki breytt nema málið verði tekið inn á Alþingi. Ríkisstjórnin getur með öðrum orðum með því einu að gera ekki neitt, hækkað skatta. Við skulum segja að núv. fjmrh. sé öðruvísi af guði gerður en aðrir fjármálaráðherrar hvað þessa hluti varðar. En ég segi það alveg eins og er að miðað við þær aðstæður sem fjármálaráðherrum eru búnar þá er það augljóst mál að það er a.m.k. freistandi að láta það vera að breyta þessum tölum með því að renna hér frv. um tekju- og eignarskattsmálin í gegnum þrjár umræður á Alþingi. Það er því alveg klárt mál að þessi aðferð sem hér er tekin upp tryggir stöðu ríkissjóðs betur en núverandi aðferð. Það er ótrúlegt að Sjálfstfl. skuli beita sér fyrir því að taka með þessum hætti utan um ríkissjóð eins og hvítvoðung og kornabarn, langt umfram það sem öðrum hefði nokkurn tíma getað dottið í hug. Á sama tíma er sjálfvirknin ekki bara afnumin gagnvart þeim aðilum sem hér hafa verið nefndir, öldruðum og öryrkjum, heldur líka gagnvart sjóðum sem eiga að sinna tilteknum félagslegum verkefnum, t.d. Vegasjóði og Framkvæmdasjóði aldraðra. Tekjur í þessa sjóði eru fastar. Þær breytast ekki með vísitölum eins og gerðist áður samkvæmt þessu frv. eða fylgifrv. þess. En þegar kemur að ríkissjóði er hann með allt sitt á þurru. Vegasjóður skerðist smátt og smátt ef ekkert er aðhafst. Framkvæmdasjóður aldraðra skerðist smátt og smátt ef ekkert er aðhafst. En ríkissjóður styrkir stöðu sína smátt og smátt, ef ekkert er aðhafst. Það er alveg furðulegt ef hv. 16. þm. Reykv. hefur samþykkt þessa aðferð við að tryggja ríkissjóði sjálfvirka vellíðan, liggur mér við að segja, án þess að ríkisstjórnin þurfi nokkurn tímann að leggja þingmál af þessu tagi fram við þessa virðulegu stofnun. Hæstv. fjmrh.er auðvitað vorkunn, hann er búinn að vera í fimm ár í embætti, eða lengur en flestir aðrir í sögunni og kemst þar sennilega næst Eysteini Jónssyni. Hann er því orðinn alveg merktur af þessu, blessaður karlinn, með leyfi forseta, hæstv. fjmrh.

Það er annað mál. En einhverjir í þingflokki Sjálfstfl. ættu þó að kveikja á þeirri hlið málsins að þarna er verið að bæta stöðu ríkissjóðs þannig að hann eykur tekjur sínar með aðgerðaleysi fjármálaráðherrans. Það er kjörstaða fyrir ríkissjóð. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh. um þetta mál sérstaklega. Það er dálítið sérkennilegt að þessi grundvallarþáttur sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði að umtalsefni skuli ekki vera ræddur hér alveg sérstaklega, vegna þess að hann er hinn pólitíski kjarni þessa máls. Það veldur manni aftur og aftur undrun og áhyggjum að þegar verið er að tala um mál af þessum toga hér í þessari virðulegu stofnun, þá tala menn helst ekki um pólitík, mun frekar um tækni. Þetta er pólitík. Hún liggur í þessu dekri við ríkissjóð. Hann hefur allt sitt á þurru svo lengi sem hæstv. núv. ráðherra nennir að hafa þetta eins og það er. Og hv. þm. Pétur Blöndal er að verða algerlega geðlaus eftir ótrúlega stuttan tíma. Algerlega geðlaus, maðurinn. Hvernig verður hann í lok kjörtímabilsins, hæstv. forseti?

[16:15]

Varðandi málið að öðru leyti langar mig að leggja þrjár litlar efnisspurningar fyrir hæstv. fjmrh. Það er í fyrsta lagi varðandi 9. gr. Þar er gert ráð fyrir því að fella niður eitt lítið orð. Það er orðið skriflega. Ég segi nú alveg eins og er, það er tími til kominn að það orð sé fellt út úr lögunum. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það hafi komið til tals að opna fyrir það í auknum mæli að menn þurfi ekki að standa í þessari skattframtalasúpu sem er aðallega til þess fallin að halda uppi atvinnubótavinnu í tiltekinni stétt manna í þessu landi og sem taka fyrir það morð fjár af blásaklausu fólki. Ég flutti um það þingmál fyrir alllöngu að menn hættu þessu þannig að ekki yrði um að ræða skattframtöl í núverandi skilningi nema ef menn teldu að viðlögðum drengskap að þess þyrfti enda hefði ríkið ekki allar upplýsingar um tekjur og gjöld manna hvort eð er inni á tölvum sínum. Þá voru tölvurnar ekki komnar eins fullkomnar og núna er og núna getur þetta legið fyrir hjá ríkinu. Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. um það vegna þess að það væri þrifnaður í nafni tækninnar að losna við þetta pappírsfargan sem sem heitir skattaframtöl.

Í öðru lagi ætlaði ég að spyrja um 6. gr., um bílana. Það hefur kannski þegar komið fram hvernig kostnaður af 6. gr. er áætlaður og þá biðst ég afsökunar á því að taka tíma Alþingis í endurtekningu. Ég geri ráð fyrir því að meiningin sé að þetta sé núll út og inn og það sé sem sagt engin tekjuaukning fyrir ríkið af þessu. Hvernig sjá menn þetta fyrir sér? Það væri fróðlegt að sjá grunntölur þessa máls varðandi bílaafskriftirnar.

Svo að lokum varðandi lífeyristryggingarnar, lífeyrissjóðina. Hvernig hefur verið háttað samráði við Alþýðusambandið um þessi mál, þ.e. varðandi skattlagningu lífeyrisiðgjaldanna og lífeyrisgreiðslanna? Hefur sérstakt samráð farið fram um þessi mál við Alþýðusamband Íslands? Er það sammála þeirri aðferð sem hér er um að ræða og þeim tíma sem er tekinn í málið hér eins og frv. liggur fyrir og gerð er nokkuð rækilega grein fyrir í greinargerðinni en er pínulítið flókið að lesa sér til um vegna þess að þau ákvæði sem eiga saman t.d. varðandi það atriði eru á víð og dreif í frv. Þau eru t.d. a-liður 3. gr. sem gerir ráð fyrir því að 4. töluliður a-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna falli niður og til þess að geta áttað sig á því hvað þetta þýðir þarf líka að lesa ákvæði til bráðabirgða V. Það þarf alveg ótrúlega langa bið eftir flugvél, hæstv. forseti, til að hafa tíma til að lesa sig í gegnum þetta mál en ég var svo heppinn að ég átti kost á verulega langri og velheppnaðri bið eftir flugvél í gær til að lesa stjórnarfrv.

Ég hef leyft mér að leggja fram þrjár tæknilegar spurningar fyrir hæstv. fjmrh. og svo allra náðarsamlegast eina pólitíska spurningu ef hann skyldi hafa pólitíska skoðun lengur.