Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:18:38 (933)

1995-11-16 16:18:38# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:18]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, beindi þeirri spurningu til mín hvort ég væri orðinn geðlaus. Ég ætla að vona að svo sé ekki. En það er rétt hjá honum að þetta frv., þessar frystingar, þýða í rauninni sjálfvirka vellíðan fjmrh. Ef launahækkanir og verðbólga verða umtalsverð þá lækka frítekjumörkin eða þau raunlaun sem menn mega hafa án þess að borga skatta og menn þurfa að borga skatta af sífellt lægri rauntekjum. Þetta er eitt og svo koma útgjöldin að sama skapi til með að lækka þar sem þau eru öll fryst. En ef það kemur í ljós eftir árið að verðbólga hefur verið einhver að ráði munu menn að sjálfsögðu leiðrétta þessar tölur. Menn eru ekki að horfa upp á það að skattarnir hækki og útgjöldin lækki sjálfvirkt af þessum ástæðum heldur munu menn taka á þessu máli þegar þar að kemur. En það verður gert meðvitað. Ekki sjálfvirkt eins og í dag. Varðandi meginmálið þá er það halli ríkissjóðs sem við verðum að horfa á. Við þurfum að gæta hagsmuna skattgreiðenda. Við þurfum að halda útgjöldum í skefjum og eins ég gat um í umræðunni í dag um ríkisreikning 1994 þá höfum við Íslendingar safnað skuldum á síðustu tveim árum sem nema 260 þús. kr. á hvert einasta mannsbarn. Takið eftir, hv. þm., ríkissjóður hefur safnað skuldum, þ.e. fólk á eftir að borga heil mánaðarlaun í skatta fyrir þessi tvö ár, hvort árið um sig. Þetta er áhyggjuefni. Ég held við þurfum að líta fyrst og fremst á halla ríkissjóðs og þetta frv., þessi sjálfvirka vellíðan minnkar hann.