Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:20:34 (934)

1995-11-16 16:20:34# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:20]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort er betra geðleysið eða vellíðunin með ríkissjóði. Ég hef aldrei heyrt annað eins. Er það virkilega þannig að menn telji að þetta sé leiðin til þess að rétta við hallann á ríkissjóði? (PHB: Ein af mörgum.) Ein af mörgum, að láta það gerast hægt og bítandi að persónuafslátturinn lækkar í raun, að barnabæturnar lækka í raun, að allir frádráttarliðir af sköttum lækka í raun og þannig batni staða ríkissjóðs. Er það virkilega stefnan að ekkert þurfi að gera annað en að gera ekki neitt uppi í fjmrn.? Ég er sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að það þarf að taka á halla ríkissjóðs. Ég hef flutt ýmsar tillögur um það hvernig hægt væri að fara í þá hluti. Það á að taka á halla ríkissjóðs með meðvituðum pólitískum ákvörðunum en ekki með sjálfvirkri vísitöluvellíðan ráðherra sem þurfa ekki einu sinni að flytja frv. til að laga til hjá sér í kassanum.