Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:23:53 (937)

1995-11-16 16:23:53# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:23]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Mig langaði til þess aðeins að gera að umtalsefni örfá atriði sem komið hafa fram í þessum umræðum ef vera mætti að það skýrði eitthvað til viðbótar því sem þegar hefur komið fram út á hvað frv. gengur.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, rifjaði upp það sem kemur fram í fjárlagafrv. á bls. 269 þar sem borin er saman skattbyrði í aðildarríkjum OECD og þróun skattbyrðarinnar frá 1980 til 1994. Spurt var hvort tölurnar væru sambærilegar. Svarið er að þær eru að því leyti sambærilegar að það er reynt að hafa þær eins sambærilegar og kostur er. Það kann þó að vera í stöku tilvikum að taka þurfi tillit til þátta eins og þeirra að í íslenska skattkerfinu eru bótaákvæði sem gætu verið útgjaldamegin hjá sumum þessara þjóða og eins er nokkuð á flökti að hve miklu leyti menn líta á lífeyri og lífeyrisuppsöfnun hreinlega sem tekjur á vegum ríkjanna og það kann í sumum tilvikum að rugla nokkuð myndina. En yfirleitt má segja að þetta sé nokkuð góður samanburður, að minnsta kosti held ég að óhætt sé að fullyrða að þegar þróun er skoðuð, þ.e. hreyfingarnar frá einum tíma til annars, sé hægt að taka mark á því. Það liggur fyrir að skattar hafa ekki hækkað jafnmikið hér á landi og víðast í okkar nágrannalöndunum. Sem betur fer hefur okkur tekist að halda þeim niðri enda kemur í ljós að skattbyrðin hér á næsta ári verður lægri en skattbyrðin allar götur til ársins 1987 ef við mælum skattbyrðina sem hlutfall skatttekna ríkissjóðs á móti vergri landsframleiðslu sem er sá mælikvarði sem er oftast notaður. Þetta er vegna þess að menn hafa farið mjög gætilega í skattahækkanir, að minnsta kosti núna á undanförnum árum en auðvitað kemur líka til sögunnar nefnarinn í stærðinni því landsframleiðslutalan hefur að sjálfsögðu áhrif á hlutfallið.

Hvað varðar festinguna eða frystinguna er miðað við tölurnar eins og þær eru núna. Síðari hluti þessa árs er tekinn og fryst miðað við það. Frádráttarliðir og bótaliðir eru ekki einungis frystir, það er líka verið að frysta skattana sjálfa eins og bifreiðagjöldin. Þeir hækka ekkert sjálfvirkt vegna þess að það kemur auðvitað niður á blessuðum aumingjunum í ríkissjóði, þannig að rök hv. þm. hvað þetta snertir ná ekki langt þegar það er skoðað, þetta gildir líka um sjálfa skattheimtuna.

Hv. þm. Ágúst Einarsson spurðist fyrir um fjármagnstekjuskattinn og spurði hvar tekjurnar væru. Það er rétt hjá honum að ekki er gert ráð fyrir því í frv. til fjárlaga að neinar tekjur komi á næsta ári af fjármagnstekjuskatti. Ég held að það liggi í hlutarins eðli. Eins og fjármagnstekjuskatturinn er hugsaður og hefur verið hugsaður á undanförnum árum er hann staðgreiðsluskattur, það er meginprinsippið og þá er hann tekinn þegar vextirnir falla til. Vextirnir falla oftast til í bankakerfinu og hjá verðbréfafyrirtækjunum um áramót þannig að tekjurnar, þó við mundum lögfesta þetta núna, mundum við ekki láta ná til vaxtateknanna á yfirstandandi ári með því að hafa þetta afturvirka skatta. Menn gætu því í fyrsta lagi búist við tekjum í upphafi ársins 1997 af þessum skatti. Það er því óvarlegt að gera út á þær tekjur á næsta ári. Ef um er að ræða skatta á áfallna vexti í öðrum viðskiptum mundi það vera greitt eftir á þegar tekjurnar falla til. Ekki er verið að leggja skattana á áfallna ógoldna vexti eins og hugmyndin er að minnsta kosti hjá nefndinni þessa stundina ef ég skil þær hugmyndir rétt. Í öðru lagi hygg ég að það sé ekkert sjálfgefið að það eigi að taka þessar tekjur beint í ríkissjóð. Það getur vel verið að við þurfum á þeim að halda, t.d. til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjuskattskerfisins. Þess vegna er óvarlegt að búast við tekjum af fjármagnstekjuskattinum, það þarf að minnsta kosti að taka ákvörðun um það á þeim tíma þegar það liggur fyrir.

Þetta vona ég að hafi skýrt nokkuð hvers vegna ekki er verið að taka inn tekjur af fjármagnstekjuskattinum en hv. þm. ræddi síðan um þátt Indriða H. Þorlákssonar í málinu sem er reyndar ekki í nefndinni. Ég vil eingöngu segja um það að Indriði H. Þorláksson er afkastamikill starfsmaður fjmrn. og það er þörf fyrir vinnu hans víðar en á þessum stað og hann þurfti að sinna öðrum verkefnum. Hv. þm. spurðist síðan fyrir um viðræður á milli aðila vinnumarkaðarins, kjaraviðræður, eins og þeir kalla þessar viðræður. Þá er hugmyndin að opna ekki kjarasamningana heldur að ræða um það hvernig bæta megi kjörin án þess. Ég útiloka ekki að það verði rætt um verðlækkun og ég held að það sé hárrétt sem fólst í spurningu hv. þm. að mjög mikilvægt sé að passa upp á það að verðlag fari ekki úr skorðum. Það er sjálfsagt það mikilvægasta sem við stöndum frammi fyrir í dag. Ég held að allir séu sammála um það hvar í flokki sem þeir standa að það er sjálfsagt það mikilvægasta sem við stöndum frammi fyrir í dag. Ég held að allir séu sammála um, hvar í flokki sem þeir standa, að það bætir best lífskjörin að hemja verðlagið. Komist verðbólgan aftur af stað er nánast úti um okkur og verst fer verðbólgan með þá sem minnst hafa handa á milli. Það er saga sem allir þekkja.

[16:30]

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ræddi um verðtrygginguna og þótti skjóta skökku við að við værum að taka út sjálfvirkar hækkanir hér á meðan það væri ekki gert í bankakerfinu. Sannleikurinn er sá að þetta er gert í bankakerfinu á öllum styttri skuldbindingum. Hér er þó aðeins verið að tala um sjálfvirkni eitt ár í senn en ekki þrjú ár. Það er stefnt að því að skuldbindingar til styttri tíma í bankakerfinu beri eingöngu vexti en ekki verðbætur. En þess ber að geta, eins og kom reyndar fram hjá hv. þm., að verðbætur eru hluti af vaxtakerfinu sjálfu. Það er því ekkert í markaðskerfinu sem getur komið í veg fyrir það að vextirnir breytist, ef verðbótaþátturinn er tekinn frá. Það þekkja allir, því vextirnir gegna öðrum lögmálum og þá væntanlega helst lögmálum framboðs og eftirspurnar.

Vegna orða hans er mjög mikilvægt að það komi fram, að þegar við vegum saman þær breytingar sem voru gerðar á sl. vetri vegna kjarasamninganna og þær breytingar sem nú er verið að gera kemur í ljós að skattbyrðin minnkar ef við tökum þessar tvær aðgerðir saman. Og skattleysismörkin verða að meðaltali á næsta ári hærri heldur en þau ella hefðu orðið án þessara tveggja breytinga. Það munar ekki miklu, en nóg til þess að það er óhætt að halda því fram að skattbyrðin er lægri vegna þessara breytinga, ef við vegum þær saman. Þar sem hv. þm. er alltaf að núa mér því um nasir að hallinn hafi verið hæstur og mestur árið 1993, þegar hann var 19 milljarðar, vil ég benda honum á að árið 1989 var hallinn 80 milljarðar. Hver skyldi nú hafa verið ráðherra þá? En auðvitað skiptir mestu máli að kanna hvað er á bak við þessar tölur. Árið 1989 voru lífeyrisskuldbindingar ríkisins færðar upp og árið 1993 voru milli fjórir og fimm milljarðar teknir inn í afskriftir. Hvað heldur hv. þm. að hafi verið afskrifað? Auðvitað skuldirnar sem söfnuðust m.a. upp í tíð þáv. formanns Alþb. Svona samanburður er því alveg út í bláinn. Hafi hv. þm. áhuga á að krossfesta einhverja, í beinum eða óbeinum skilningi, ætti hann að vara sig. Það gæti lent á manni sem stendur honum nær. (SvG: Ráðherrann kenndi þingmanninum.) Já, ég veit það, en svo mundi ég allt í einu eftir því í hvorum vængnum hann var í flokknum. Ég heyri að það hefur skilist sem átti að skiljast.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir ræddi um fjármagnstekjuskattinn. Ég tel mig hafa svarað því. Við gerum ekki ráð fyrir því í tekjum næsta árs að fá tekjur af fjármagnstekjuskattinum.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði nokkurra spurninga sem ég ætla að reyna að svara eftir bestu getu. Í fyrsta lagi var spurt um samráð við verkalýðshreyfinguna vegna lífeyrisiðgjaldanna. Ég tel að óhætt sé að segja að það hafi verið samráð um það hvernig við færðum afsláttinn eða skattafrádráttinn á milli áranna 1995--1997. Ég held að mér sé líka óhætt að fullyrða að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hreyfðu þessu máli ekki síst vegna þess að þeir voru mjög óánægðir með þá aðferð sem þáv. ríkisstjórn beitti með því að taka 15% af útborguðum lífeyri úr lífeyrissjóðunum. Í raun og veru viðurkenndu þeir, að vísu í einkasamtölum við mig, að ástæðan væri þessi og þeir vildu leggja áherslu á að velja þessa aðferð frekar en hina. Og allir sjá að þær ganga ekki saman, það er útilokað. Ég tel mér því óhætt að segja að það hafi verið skilningur allra á því. Þegar kemur hins vegar að breytingunni sem nú er verið að gera, er ekki hægt að tala um neitt samráð við verkalýðshreyfinguna um þessa frystingu. Það eina sem ég get sagt er að í viðræðum sem ég tók þátt í, lokaviðræðum í febrúar á þessu ári, var sagt mjög skýrt og skilmerkilega að við, og það veit ég að hv. 9. þm. Reykv. getur staðfest, áskildum okkur rétt til þess annaðhvort að skera niður eða afla tekna til að bæta okkur upp þann tekjumissi sem yrði af þessari aðgerð. Þetta þarf að koma mjög skýrt fram og var reyndar sett niður með skriflegum hætti þannig að það væri alveg tryggt og forustumenn þáv. stjórnarflokka létu þetta koma fram í kosningabaráttunni. Hér var því ekki verið að fara á bak við einn eða neinn.

Hvað bifreiðaafskriftirnar varðar þá kosta þær að sjálfsögðu peninga. Ég hef töluna ekki hjá mér, en ég gæti trúað að hún sé u.þ.b. 30--40 millj. kr., ég þori ekki alveg að ábyrgjast það. Þetta er fyrst og fremst skattur sem sparast hjá þeim sem borga eignarskatta. Það eru þeir sem greiða þennan skatt, aðrir ekki. Varðandi 9. gr., þ.e. að fella þá niður skriflega, þá hefur það reyndar komið fram hjá mér áður og það er ágætt að fá tækifæri til að endurtaka það, þar með er ég sammála hv. þm. Þetta hefur verið gert annars staðar og verið er að athuga þetta og undirbúa hér. Það er augljóst að við þurfum að gera framtölin auðveldari fyrir meginþorra almennings. Ég get mér þess til að u.þ.b. 70% af launþegum geri ekki annað en að færa tölur sem koma frá hinu opinbera, eða frá stórum atvinnurekendum, af tölvukeyrðum seðlum með handvirkum hætti yfir á skattframtalið. Svo situr hersing af mönnum í skattkerfinu og fer yfir það hvort það sé rétt gert og potar í með rauðu þegar einhver leggur vitlaust saman. Þessu er hægt að breyta og stefnt er að því að keyra saman þessar skrár þannig að það hægt sé að færa fasteignamat og launatölur með rafrænum hætti og svo skrifa menn bara undir nema þeir hafi athugasemdir við að gera. Þetta á að vera hægt og að þessu er unnið en þetta mun taka nokkurn tíma.

Í lokin vil ég víkja að umræðunni sem hv. þm. kallaði pólitíska umræðu. Það er rétt að við erum að koma á hér á landi sama kerfi og er í öllum nágrannalöndum okkar sem snýst um að það sé ekki sjálfvirkni í hækkunum í skattkerfinu, hvorki á sköttunum, né á afsláttar- og bótaliðunum. Það þýðir að til þess að lækka skattana, eða að hækka þá ekki, þarf að flytja sjálfstætt frv. Ég get bætt því við að ein af ástæðunum fyrir því að þetta er talið eðlilegt er sú að við höfum verið að breyta stjórnarskránni. Það hefur verið amast við því að færa í reglugerðir eða setja í lög sjálfvirkni af þessu tagi, sérstaklega ef þær eru íþyngjandi fyrir þegnana. Þannig að ég tel að það sé ekki ofverk þingsins að taka einn skattabandorm þar sem þessum tölum væri breytt árlega. Það liggur ljóst fyrir, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, að það kunna að vera pólitísk rök sem hníga að því að hækka sumt meira en annað. Það verður þá að vera pólitískt mat þingsins á hverjum tíma. En eins og hv. þm. sagði réttilega þá styrkir þetta stöðu fjmrh. og ríkissjóðs ef ekkert breytist. Og kannski má nú greyið ríkissjóður einhvern tímann hafa hag af aðgerðaleysinu.