Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:47:25 (942)

1995-11-16 16:47:25# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst þetta með þráhyggjuhátt hv. þm. um hallann. Það gildir nákvæmlega það sama fyrir árið 1993. Margir milljarðar eru settir inn á árinu 1993 sem tilheyra allt öðrum árum því það er verið að safna upp afskriftum frá mörgum árum. Ég hygg að hallinn 1991 sé talsvert hærri en hallinn 1993 á sama verðlagi þó ég muni það ekki hér og nú. Varðandi skattbyrðina og það tog sem fer fram um það hverfa frá verðuppfærslunni, sjálfvirkninni, ætla ég bara að minna hv. þingmenn Alþb. á að 1988 þegar lögin voru tiltölulega ný var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ráðherra. Það fyrsta sem hann gerði var að breyta lögunum þannig að í stað þess að færa upp sjálfvirkt tvisvar á ári eins og lögin höfðu gert ráð fyrir breytti hann lögunum þannig að uppfærslan var bara annað hvort skipti. Á þann hátt virkuðu þau lög auðvitað mjög vel fyrir ríkissjóð og með sömu rökum og þeir beita hér má halda því fram að hann hafi náð verulegum fjármunum inn í ríkissjóð bara með þessu. Við erum ekki að segja að við ætlum að fara þessa leið. Við erum að segja að við ætlum að breyta þessu einu sinni á ári, kannski stundum meira og stundum minna. En að halda því fram að það sé eitthvað nýtt að fara út með sjálfvirknina er rangt. Uppfinningamaðurinn og sá sem beitti þessu af mestum refskap var fyrrv. form. Alþb., fyrrv. fjmrh., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. (Gripið fram í: Þá varstu á móti þessu.)