Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:49:04 (943)

1995-11-16 16:49:04# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:49]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er óumdeilt að hallinn á rekstri ríkissjóðs árið 1993 var verulega hærri en árið 1991. Þó svo væri ekki breytti það engu varðandi hæstv. fjmrh. því að hann stýrði ríkisfjármálunum átta mánuði af því ári og hafði öll tæki og aðstöðu til þess að gera þær breytingar sem hann taldi nauðsynlegt að ráðast í. Ég vil minna á að með þeirri breytingu að afnema svokallaða verðuppfærslu á bótum og öðrum slíkum greiðslum eða persónuafslætti er verið að tryggja ríkissjóði sjálfvirkt aukinn hlut skatttekna í hverri launahækkun frá því sem nú hefur verið af því að persónuafslátturinn hækkar ekkert á móti hækkun kaupsins. Verið er að afnema það sem verið hefur í fjárlögum að persónuafsláttur og sjómannaafsláttur og aðrar slíkar upphæðir hækka á hverju ári um mitt ár og taka breytingum sem nemur hækkun á lánskjaraavísitölu frá áramótum til miðs árs. Það er verið að taka þessa hækkun af launafólki með þessu ákvæði um að afnema svokallaða verðuppfærslu.