Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:50:46 (944)

1995-11-16 16:50:46# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:50]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla enn á ný að endurtaka það sem þetta frv. gengur út á. Ég ætla að reyna að segja með eins einföldu orðalagi og mér dettur í hug á þessari stundu. Við erum að gera tvær meginbreytingar á þessu ári á skattalögunum. Önnur var vegna kjarasamninganna. Hin er vegna fjárlagafrv. Ef við tökum báðar þessar breytingar, steypum þær saman í eitt og spyrjum okkur að því hver áhrifin eru af þessum breytingum þá er niðurstaðan sú ef við berum saman það hvað kemur út úr þessu samtals og síðan hvað hefði gerst ef við hefðum fært upp skattleysismörkin með verðlagi eða með lánskjaravísitölu er heldur skárri útkoma nú að þessu samanlögðu en ella hefði orðið. Þetta er staðreynd sem ég veit að hv. þm., sem er góður stærðfræðingur, enda hafði hann góðan kennara í gamla daga, kemst að raun um þegar hann sest niður og reiknar þetta dæmi út.