Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:54:27 (946)

1995-11-16 16:54:27# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:54]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er aðeins eitt atriði sem mig langar til að minnast á í því tækifæri sem hér gefst. Er ekki hreinlegra að afnema þessi ákvæði nú þegar verðbólgan mælist í þessum mánuði -0,3% ef ég man rétt, en hún er einhvers staðar á bilinu 1,5--2%, en að fara þá leið sem hv. þingmenn fóru þegar þeir sátu í ríkisstjórn á sínum tíma, að segjast ætla að halda þessu kerfi gangandi og hækka þetta upp með vísitölu og ætla að gera það bara í annað hvort skipti? Síðan héldu þeir því fram að þá hefðu þeir alltaf verið að hækka þetta á hverju ári. En hækkunin nam kannski ekki nema helmingnum af því sem þurfti á að halda. Hér er viðurkennt að við erum að taka þetta úr sambandi. Hér er sagt, við ætlum ekkert að hækka á næsta ári vegna þess að við höfum þegar komið með ívilnandi breytingar varðandi lífeyrisiðgjöldin sem eru skattalækkandi aðgerðir. Við segjum jafnframt að við ætlum í hvert skipti sem við erum að koma fram með fjárlagafrv. að líta á þessar tölur og hækka þær eftir atvikum, ekki endilega allar jafnt, en auðvitað verður það til umræðu í hvert skipti sem fjárlög verða til umræðu. Þessi aðferð er reyndar notuð víðast hvar í nágrannalöndunum og ég held að hún sé miklu þrifalegri og sé miklu samrýmanlegri allri lagasetningu nú þegar verðbólgan hefur að minnsta kosti um sinn yfirgefið íslenskt efnahagslíf.