Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:56:21 (947)

1995-11-16 16:56:21# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:56]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er talsverður munur á því hvort menn tala um verðbólgustig eins og það er núna og hæstv. ráðherra rakti eða verðbólgustig eins og það sem hann lét eftir sig þegar hann var í ríkisstjórn undir forustu Þorsteins Pálssonar sem hrökklaðist frá völdum í september 1988. Þá var um að ræða allt aðra stöðu og útilokað að taka á málum í nokkra þá veru sem hér er verið að tala um. Ég skil betur að menn ræði um þessa hluti í því samhengi sem hann gerir núna en hefði verið gert þá. Það er allt annað mál. Ég viðurkenni það. Hitt er hins vegar ljóst að með því að afnema algerlega þessar sjálfvirku tengingar varðandi þessa ívilnandi þætti skattalaganna er verið að segja: Skattarnir hækka sjálfkrafa nema ef eitthvað nýtt komi til. Það er röng nálgun að mínu mati, hæstv. forseti, og um það erum við fjmrh. bersýnilega ósammála.