Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 10:43:07 (952)

1995-11-17 10:43:07# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[10:43]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 30 hef ég og aðrir þingmenn Þjóðvaka borið fram eftirfarandi þingsályktun:

,,Alþingi ályktar að taka beri upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi. Sjútvrh. skipi nefnd til að undirbúa löggjöf um þetta efni. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar frá öllum þingflokkum og helstu samtökum útgerða, sjómanna og fiskvinnslu. Nefndin kanni hvaða form veiðileyfagjalds er heppilegast með tilliti til áhrifa m.a. á eftirtalin atriði: Fjárhagslega stöðu sjávarútvegs, fiskveiðistjórnun, viðskipti með veiðileyfi, hagstjórn hérlendis, byggðaþróun, samkeppnisstöðu atvinnuvega og ríkisfjármál. Nefndin leiti ráðgjafar hjá sérfræðingum á sviði fiskihagfræði og kynni sér fyrirkomulag í öðrum löndum.

Nefndin skili áliti fyrir marslok 1996 og verði frv. um veiðileyfagjald lagt fyrir Alþingi á vorþingi 1996.``

Þetta var texti tillögunnar. Hér er hreyft merkilegu máli og mikilvægu. Fiskveiðar okkar eins og annarra þjóða hafa staðið frammi fyrir þeirri breytingu að í stað frjálsra veiða eins og við höfum þekkt um aldir hefur orðið að stýra veiðum með ýmsum hætti vegna ofveiði.

Það ber hins vegar að hafa skýrt í huga að þetta er í reynd tvískipt umræða, þ.e. um fiskveiðistjórnunina og svo um hvort og hvernig eigi að leggja á veiðileyfagjald fyrir úthlutaðar aflaheimildir. Fiskveiðistjórnun lýtur aðferðum við stýringu sem bæði miðar að því að vernda fiskstofna, en einnig að hafa hagkvæmni í skipulagi þannig að arðsemi ríki við veiðar. Ýmsar leiðir eru í fiskveiðistjórnun, svo sem aflamarkskerfi, sóknarmark, svæðalokanir, veiðarfæratakmarkanir, hörð löggjöf við brotum og öflugt eftirlit.

Þessi þáltill. fjallar ekki um stýrikerfið heldur um gjaldtöku fyrir úthlutaðar aflaheimildir. Það segir í lögum að fiskimiðin séu eign þjóðarinnar. Það er grundvöllur löggjafar okkar um þetta efni. Eignarréttur þjóðarinnar á fiskimiðum og fiskstofnum er ótvíræður þótt útgerðarmenn fái tímabundinn afnotarétt til að draga fisk úr sjó. Þessi tímabundni afnotaréttur felst í úthlutun veiðileyfa. Það gildir um veiðileyfi eins og annað sem er af skornum skammti að þau eru ávísun á verðmæti. Þar sem ekki er unnt að hafa frjálsar veiðar hér við land eins og var á árum áður vegna hættu á ofveiði og óhagkvæmum útgerðarháttum þá verður ríkisvaldið að úthluta veiðiheimildum eða stýra veiðum með fastmótuðu skipulagi.

Þessi úthlutun verðmæta af hálfu ríkisins hefur verið án gjaldtöku hingað til þótt vísi að slíku gjaldi megi finna í lögum um Þróunarsjóð Íslands. Veiðileyfagjald mundi staðfesta þjóðareign á fiskimiðum. Það er eðlilegt að eigandi fái afgjald fyrir eign sína. Það er grundvallaratriði að ekki sé hægt að fénýta eign annarra án þess að gjald komi fyrir og fiskimiðin eru eign allrar þjóðarinnar en ekki útgerðarmanna.

Þegar rætt er um veiðileyfagjald er átt við gjaldtöku fyrir veiðiheimildir. Það þarf að hafa skýrt í huga að við hagkvæm stjórnkerfi myndast svokallaður fiskveiðiarður. Hugmyndir um veiðileyfagjald lúta að því að hluti af þessum fiskveiðiarði renni beint til þjóðarinnar, eigenda fiskimiðanna. Höfuðatriði við fiskveiðar er að stjórnkerfið sé hagkvæmt og feli í sér að fiskveiðiarður myndist og að honum sé ekki sóað með röngu skipulagi. Það sést best að fiskveiðiarður er umtalsverður í núverandi kerfi að veiðiheimildir ganga kaupum og sölum á tiltölulega háu verði. Það er besta sönnunin fyrir því að innan sjávarútvegs er fé til að greiða fyrir aflaheimildir. Sérstaða auðlindarinnar kemur m.a. fram í því að hér er um endurnýjanlega auðlind að ræða sem er á stöðugri hreyfingu, miklar sveiflur eru í stofnstærðum, víðáttumikil veiðisvæði sem eru sífelldum breytingum undirorpin og hér er um að ræða veiðar á villtum dýrum til manneldis, en það er einsdæmi í heiminum í því umfangi sem fiskveiðar eru.

Rök fyrir veiðileyfagjaldi eru ýmiss konar, m.a. réttlætissjónarmið. Það særir réttlætiskennd manna að verslað sé með veiðiheimildir og þeir sem fengu þær upphaflega úthlutaðar geti hagnast verulega með því að selja þær eða leigja. Þeir hafa ekkert greitt fyrir þær, hvorki við úthlutun í upphafi né árlegt leigugjald. Veiðileyfagjald hefur verið innheimt af sjávarútvegsfyrirtækjum með gengisskráningu undanfarna áratugi. Gengið var tiltölulega hátt skráð sem leiddi til þess að innflutningur varð ódýrari. Útgerðin hefur í reynd alltaf greitt nokkurs konar auðlindagjald eða veiðileyfagjald. Þannig hefur afrakstri af sjávarútvegi verið veitt inn í hagkerfið þjóðinni til hagsbóta.

Sjávarútvegur hefur þó síðustu ár orðið meiri almenningseign með tilkomu stórra almenningshlutafélaga en nú eru flest stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi almenningshlutafélög með dreifða eignaraðild m.a. lífeyrissjóða. Aðrar atvinnugreinar hafa hins vegar þurft að sætta sig við það gengisstig sem hentar sjávarútveginum hverju sinni. Þegar illa hefur gengið í sjávarútvegi hefur gengið verið lækkað með afleiðingum sem allir þekkja. Þetta á ekki við lengur þegar gengisstefnan er sú að halda gengi sem stöðugustu, verðbólgu sem lægstri og freista þess að aðrar atvinnugreinar byggist upp við hlið sjávarútvegs.

Eitt af helstu vandamálum okkar í hagstjórn er hve illa hefur gengið að byggja upp aðrar útflutningsgreinar. Styrkleiki sjávarútvegs er það mikill, aðallega vegna gjöfulla fiskimiða, að hann hefur drepið af sér nær allan annan útflutningsiðnað. Sjávarútvegurinn þolir miklu hærra gengi en annar útflutningsiðnaður. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hve miklum verðmætum við náum út úr íslenskum fiskimiðum. Fiskstofnar eru flestir fullnýttir og nokkrir ofveiddir. Vitanlega munum við enn auka verðmætasköpun í sjávarútvegi, m.a. með nýtingu fleiri stofna, meiri úrvinnslu afla og öflugri markaðsstarfsemi. En Íslandsmið eru ekki ótakmörkuð auðlind. Sókn Íslendinga til betri lífskjara verður m.a. í útlöndum þar sem við munum veiða, vinna og selja fisk. Fjöldi Íslendinga mun í framtíðinni starfa erlendis og verðmætasköpunin kemur þannig inn í landið, en einnig verður að byggja hérlendis upp annan öflugan útflutningsiðnað og samkeppnisiðnað. Liður í því er að sjávarútvegurinn greiði fyrir aðgang að auðlindinni og þannig verði starfsskilyrði atvinnuveganna jöfnuð.

Vitaskuld er hægt að hugsa sér víðtækara veiðuleyfagjald eða auðlindagjald. Það er fullt samræmi í því að leggja auðlindagjald á sameiginlegar auðlindir eins og vatnsaflið. Sama gildir ef ríkisvaldið úthlutar takmörkuðum verðmætum eins og sjónvarpsrásum. Þá er eðlilegt að fyrir það sé greitt. Veiðileyfagjald í sjávarútvegi er því eðlilegt og rökrétt framhald þjóðarsáttar um jafnvægi og stöðugleika í efnahagsmálum.

Það er grundvallaratriði í stýrikerfi veiðanna að útgerðaraðilar geti framselt heimildir sín á milli og þannig tryggt hagkvæmni í útgerðarháttum. Ef sú regla væri tekin upp að allur afli færi um fiskmarkaði mundu ýmis vandamál leysast af sjálfu sér. Það leiðir til þess að nálægð við fiskimið og sérþekking fengi að njóta sín í samkeppni um fisk til vinnslu. Helsti galli framsals við núverandi aðstæður er að hægt er að hagnast á viðskiptum með eign annarra, kvótann, án þess a greiða nokkuð til eigandans.

Veiðileyfagjald er einnig leið til sveiflujöfnunar í sjávarútvegi, en sveiflur vegna verðbreytinga á erlendum mörkuðum hafa oft haft veruleg áhrif á hagstjórn hérlendis. Stundum er sagt að veiðileyfagjald sé skattlagning og þá skattlagning á landsbyggðina. Þetta er röng fullyrðing. Hún felur í sér í fyrsta lagi að sjávarútvegur sé aðallega á landsbyggðinni en það er ekki rétt. Reykjaneskjördæmi er umfangsmesta sjávarútvegssvæði landsins og Reykjavík er einnig mjög öflugur sjávarútvegsstaður. En vissulega er það þannig að á landsbyggðinni er sjávarútvegur oft burðarás atvinnulífsins, en álagning veiðileyfagjalds hefur ekkert með staðsetningu að gera. Veiðileyfagjald er vissulega gjaldtaka en ef gjaldtökunni er hagað þannig að gengið er lækkað til að mæta því, sem jafnhliða styrkir annan útflutningsiðnað, þá hefur gjaldið ekki í för með sér aukin útgjöld fyrir sjávarútveginn.

Stundum er sagt að veiðileyfagjald sé fráleitt vegna þess að sjávarútvegsfyrirtæki hafi bága fjárhagslega stöðu. Staða sjávarútvegsins hefur nákvæmlega ekkert með slíka gjaldtöku að gera. Bæði hef ég lýst leiðum þar sem veiðileyfagjald er liður í víðtækum efnahagsumbótum, en auk þess hef ég lýst myndun fiskveiðiarðs í stjórnkerfinu sem er eðlilegt að dreifist til fleiri aðila en útgerðarmanna. Vitanlega má búast við að gjaldtökunni verði stillt í hóf, alla vega í byrjun enda er um nýlundu að ræða hérlendis.

Þess má geta að Nýsjálendingar, sem hafa einna bestu stjórn á sínum fiskveiðum, beita veiðileyfagjaldi til að innheimta hluta þess arðs sem kvótakerfi þeirra myndar. Þetta gjald á að standa þar undir öllum opinberum kostnaði við stjórn veiðanna þar með talið eftirliti og rannsóknum. Þarna virkar þetta vel. Fjölmargir hagfræðingar styðja veiðileyfagjald vegna þess að hér getur verið um þátt í árangursríku stjórntæki við fiskveiðar að ræða auk þess sem það er góð regla í opinberri stjórnsýslu og fjármálum að tengja þá aðila að gjaldtöku sem njóta opinberrar þjónustu á því sviði. Nú nýverið talaði Gary S. Becker, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, fyrir veiðileyfagjaldi en hann verður seint talinn draga taum ríkisvaldsins í efnahagsstjórn. Hann lítur á veiðileyfagjald sem einfalt og árangursríkt stjórntæki við veiðar og telur eðlilegt að gjaldtaka eigi sér stað þar sem hér er um úthlutun verðmæta að ræða.

Rök að ekki eigi að leggja á veiðileyfagjald vegna þess að sjávarútvegur í nágrannalöndunum er styrktur af opinberri hálfu vega ekki þungt. Mismunun í skattlagningu eða starfsskilyrðum milli landa hefur ekkert með veiðileyfagjald að gera.

Það eru ýmsar leiðir til að leggja á veiðileyfagjald og nokkrar þeirra eru gerðar að umtalsefni í tillögunni. Í fyrsta lagi gæti ríkisvaldið selt veiðileyfi á opinberu uppboði fyrir allan fiskaflann eða hluta hans.

Í öðru lagi er hægt að láta útgerðina greiða gjald í eitt skipti fyrir veiðileyfi og yrði afnotarétturinn þá eign í þeim skilningi að vildu stjórnvöld breyta kerfinu þá yrði að taka þennan rétt eignarnámi og greiða bætur þar sem aðilar hefðu þegar greitt fyrir réttinn.

Í þriðja lagi er hægt að skattleggja sjávarútvegsfyrirtæki með sérstökum hætti í tekjuskattskerfinu. Þá væri sjávarútvegsfyrirtækjum gert að greiða hærri tekjuskatt en öðrum fyrirtækjum vegna þess að þau nýta sameiginlega auðlind til að mynda þennan hagnað. Þessi aðferð hefur þann kost að ekki er skattlagt nema hagnaður sé til staðar og fiskveiðistjórnunarkerfið á jú að leiða til hagnaðar í greininni.

Í fjórða lagi er hægt að leggja árlegt gjald á hvert úthlutað þorskígildi. Kvóta yrði úthlutað eins og nú er til langs tíma sem hlutdeildarkvóta. Þetta er líklega einfaldasta leiðin í framkvæmd. Veiðileyfagjaldið getur runnið til sjávarútvegsins til að greiða kostnað hins opinbera við sjávarútveg, svo sem hafrannsóknir, eftirlit, rannsóknastarfsemi, menntamál tengdum sjávarútvegi, markaðsaðstoð og margt fleira sem virðist sjávarútveginum og öðru atvinnulífi til framdráttar.

Ýmsir forsvarsmenn íslensks sjávarútvegs verða að reyna að skilja hugmyndafræðina á bak við veiðileyfagjald og átta sig á því að veiðileyfagjaldi er ekki stefnt gegn sjávarútvegi heldur er það aðferð til að ná sátt um sjávarútvegsmál, styrkja efnahagslíf með eflingu annarra atvinnuvega og skapa sjávarútvegi sterka stöðu í umgerð efnahagsmála. Andstæðingar veiðileyfagjalds eru til lengdar að valda sjávarútveginum tjóni. Vitaskuld þarf víðsýni en ekki þröngsýni þegar rætt er um veiðileyfagjald. Það verður að nást sátt um sjávarútveginn í þjóðfélaginu og veiðileyfagjald er mikilvægur þáttur í því. Eigandi fiskimiðanna er þjóðin, almenningur í landinu. Það er réttlátt og hagkvæmt að leggja á veiðileyfagjald. Það styrkir sjávarútveg og aðra atvinnuvegi og brýtur upp staðnað kerfi. Það eru sóknarfæri í slíku nýju skipulagi, en til þess þurfa menn að hafa hugrekki að horfa fram hjá þröngum og stöðnuðum eigin hagsmunum. Hér reynir á þingheim.

Herra forseti. Ég geri að tillögu minni að þessari þingsályktunartillögu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. sjútvn.