Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 11:06:59 (955)

1995-11-17 11:06:59# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[11:06]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það hefði verið tilgangur flm., þá hefði till. til þál. að sjálfsögðu átt að vera þess eðlis að þar væri þess farið á leit að Alþingi samþykkti að kosin skyldi nefnd á vegum Alþingis til þess að vinna að framkvæmd þessa máls. Eins og tillagan er úr garði gerð, þá er þetta lagt í hendurnar á sjútvrh., þ.e. hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegsráðherra skipi nefnd til að undirbúa löggjöf um þetta efni.``

Síðan segir í lokin: ,,Nefndin skili áliti fyrir marslok 1996 og verði frumvarp um veiðileyfagjald lagt fyrir Alþingi á vorþingi 1996.`` Hver maður skilur að þarna er ætlast til þess að hæstv. sjútvrh. skipi nefndina, hafi forræði málsins og leggi síðan frv. fram að lokinni vinnu nefndarinnar. Málið er undir hans forræði og hann ætti að leggja frv. fram á Alþingi. Ætti þá að fela honum að leggja fram frv. á Alþingi sem vitað er fyrir fram að hann er andvígur? Það er það sem ég les út úr tillögunni. Hefði hins vegar vakað fyrir hv. 1. flm. það sem hann sagði áðan, hefði textinn að sjálfsögðu átt að vera í þá veru að Alþingi samþykkti að kjósa nefnd til þess að vinna að þessu máli. Nefndin legði síðan tillögur sínar fyrir Alþingi og það kæmi í hlut einhvers alþm., þingflokks eða þingflokka að leggja fram frv. sem nefndin skilaði af sér, ef viðkomandi þingmenn eða þingflokkar væru sammála því áliti. Það getur alls ekki verið hæstv. sjútvrh. sem er andvígur málinu.