Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 11:33:54 (960)

1995-11-17 11:33:54# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[11:33]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er tiltölulega mjög stutt síðan hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, 1. þm. Vestf., greiddi atkvæði á hinu háa Alþingi með gjaldtöku sem er nákvæmlega sambærileg við þá sem hann var að andmæla áðan. Reyndar gerðu það allir hv. þingmenn Sjálfstfl. og þar með talið hæstv. sjútvrh., sem verður um það er lýkur seinasta haldreipi kvótaeigenda í vonlausri baráttu þeirra gegn veiðileyfagjaldi, sem að sjálfsögðu er það sem koma skal þótt tregðulögmálið muni eitthvað þvælast fyrir. Hvað var þetta gjald sem ég var að tala um?

Fyrir skömmu lagði hæstv. ríkisstjórn fram frumvörp sín um útfærslu á framkvæmd GATT-samninganna. Partur af því var takmarkaður innflutningur, 3% að hámarki, á innflutningi samkvæmt leyfum. Ríkið tók að sér að skammta þennan innflutning. Menn veltu fyrir sér ýmsum hugmyndum um það hvernig ætti að fara að þessu, en eftir rækilega umræðu varð niðurstaða meiri hluta þings þessi: Hér er um að ræða takmörkuð gildi, fémæti sem verða fémæt vegna þess að ríkið hefur skammtað það. Það er alveg ljóst að um er að ræða nákvæmlega sams konar arðmyndun eða rentu við þetta fyrirkomulag eins og við erum að tala um. Niðurstaðan varð sú að það væri ekki rétt að þessi renta rynni í vasa heildsala sem fengju einokunarleyfi afhent ókeypis af ríkinu. Þvert á móti, þau skyldu seld af hálfu ríkisins og arðurinn renna í ríkissjóð. Allir þingmenn Sjálfstfl. greiddu atkvæði með þessu. Sér í lagi var einn snjall málflytjandi þessarar hugmyndar, hv. þm. Pétur Blöndal, en eins og menn hafa tekið eftir er hann farinn að hafa vit fyrir þeim sjálfstæðismönnum öðrum fremur í efnahags- og viðskiptamálum. Þetta var pottþéttur rökstuðningur og samlíkingin er alveg nákvæmlega sú hin sama. Með öðrum orðum er komið fordæmi fyrir því að Sjálfstfl. er þrátt fyrir allt farinn að skilja málið. Hann er farinn að viðurkenna það, ef það héti bara eitthvað annað. Þarna var það búnaðargjald. Svo kemur að sjávarútvegi og þá svíður það enn eitthvað fyrir brjósti þeirra. En vissulega er þetta það sem koma skal.