Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 11:39:39 (963)

1995-11-17 11:39:39# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[11:39]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var eitt sem ég hjó sérstaklega eftir í máli hv. 9. þm. Reykv. Það var að það sé aukaatriði að sjávarútvegurinn sé meginauðlind íslensku þjóðarinnar. Mér finnst það samt einhvern veginn vera aðalatriðið. Eitt er það sem ég man öðru fremur frá ferli mínum sem nemandi hv. þm. og það var það að reyna að taka eftir. Og mér finnst einhvern veginn að hv. þm. hafi ekki alveg lánast að taka eftir því að það sem vakir fyrir flm. þessarar þáltill., sem við erum að ræða, er nákvæmlega það að hér sé um að ræða efnahagsmál. Ekki aðferð við að stjórna fiskveiðum, heldur fyrst og fremst efnahagsmál og spurning um réttlæti. Það er auðvitað grundvallaratriði að hv. 1. flm. lagði á það mjög mikla áherslu að við værum ekki að ræða um nýtt stýrikerfi eða grundvallarspurningar um stýrikerfi fiskveiðanna, enda er gert ráð fyrir því í greinargerðinni sem hér er lögð fram að stýrikerfi fiskveiðanna byggist á framseljanlegu aflamarki og megingalli núverandi kerfis sé að það séu of miklar skorður reistar við möguleikum á framsali. Í ljósi þess að hv. þm. kenndi mér ungum að það væri mikilvægt að taka vel eftir því sem sagt væri, finnst mér sem þetta hafi einhvern veginn farið fram hjá hv. þm.