Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 11:48:37 (967)

1995-11-17 11:48:37# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[11:48]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi það að virðisaukaskatturinn af fiskinum sé eins konar auðlindaskattur í öðru formi. Það er út af fyrir sig enn ein útfærslan á því sem menn hafa kallað veiðileyfagjald eða auðlindaskatt.

Svo er það spurningin um það hvort orkufyrirtækin í landinu séu að greiða auðlindaskatt eður ei. Það er alveg ljóst að orkufyrirtækin í landinu, ekki síst Landsvirkjun, hafa hegðað sér þannig á undanförnum árum að þrátt fyrir að þar hafi verið virkjað og virkjað og fjárfest og fjárfest án þess að tekjuöflun hafi orðið samsvarandi þá hefur þetta fyrirtæki getað stillt af sínar gjaldskrár með þeim hætti að skuldirnar hafa lækkað þó að tekjurnar hafi minnkað og fjárfestingin aukist þannig að einkaréttur þess fyrirtækis hefur verið óvægilega notaður og reikningurinn af þessu ráðslagi fyrst og fremst lent hjá almenningi í landinu. Ég veit ekki hvort hv. þm. á við að þetta framferði sé sú hugmynd af auðlindaskatti sem menn vilja beita annars staðar. En þetta er hins vegar að mínu mati mjög vont dæmi um það þegar fyrirtæki hefur fengið úthlutað einkarétti til virkjana eins og Landsvirkjun hefur fengið og notar það til þess að halda uppi orkuverðinu í landinu sem fyrirtækin og einstaklingarnir borga og hefur þrátt fyrir það að tekjur minnki og fjárfestingin aukist ráðrúm til að lækka skuldir sínar. Það er umhugsunarefni og til lítils fordæmis og alls ekki til fordæmis fyrir það hvernig við eigum að nota aðrar auðlindir íslensku þjóðarinnar og síst af öllu fordæmisgefandi fyrir sjávarútveginn sem hefur hegðað sér allt öðruvísi í gegnum árin.