Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 11:50:40 (968)

1995-11-17 11:50:40# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[11:50]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram afskaplega fróðleg umræða um veiðileyfagjald. Og umræðan það sem af er leiðir vel í ljós að opinber umfjöllun og umfjöllun í þessum sölum um slíkt gjald hefur verið lítil. En eins og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir gat um áðan svo sannarlega löngu tímabær.

Tillagan sem hér liggur fyrir ber þess einnig merki að málið hefur ekki mjög verið reifað fyrrum í þessum sal. Í till. til þál. er gert ráð fyrir að skipuð verði nefnd og ég er ekki að gera, eins og menn hafa gert á undan mér, sjútvrh. að þeim manni að hann fari ekki eftir ákvörðunum Alþingis, en þessari nefnd á síðan að setja nokkurt erindisbréf. Hér eru settar fram ýmsar hugmyndir, það eru reifuð ýmis sjónarhorn og nákvæmlega það að slíkt er gert í tillögunni bendir til þess að málið sé galopið og fyrst og fremst til umfjöllunar og umræðu sem það verður að vera nú um stundir vegna þess að eins og ég gat um áðan hefur það afskaplega lítið verið rætt. Það er hins vegar orðið mjög nauðsynlegt að málið ræðist og að hv. Alþingi fari að taka ákvarðanir sem skipta máli til að sætta þjóðina við það ástand sem skapast hefur.

Menn sögðu áðan þegar verið var að tala um veiðileyfagjald og ekki veiðileyfagjald að það væri ólíku saman að jafna þegar úthlutað væri rétti til að flytja inn landbúnaðarafurðir og rétti til að veiða úr fiskveiðilögsögunni. En þó að e.t.v. sé ólíku saman að jafna þegar menn horfa til þeirra hagsmuna sem eru í húfi þá er það samt svo að ákveðið lögmál gildir um hvort tveggja. Það er það lögmál að ef um takmörkuð gæði er að ræða þá öðlast þau verð, þau verða ákveðið verðmæti. Nú getur ríkið auðvitað ef það er sá aðili sem úthlutar verðmætum notað til þess þrjár aðferðir. Ríkið getur gefið þessi verðmæti, það getur leigt þau eða selt þau. Löggjafinn ákvað að þegar um leyfi til innflutnings á landbúnaðarvörum væri að ræða þá skyldi selja leyfin. En löggjafinn hefur hins vegar ákveðið þegar um það er að ræða að menn hafi leyfi til að veiða úr auðlindinni þá skuli gefa. Síðan hafa þeir sem fengu gjöfina fengið að selja og leigja. Í þessu felst auðvitað slíkt óréttlæti að við því verður að bregðast og hefði átt að bregðast fyrr.

Það er rétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að þessi till. til þál. er ekki hvað síst fram komin vegna þessa óréttlætis, en hún er einnig fram komin vegna þess að flutningsmenn álíta, eins og reyndar fjöldamargir aðrir í þjóðfélaginu, að veiðileyfagjald geti jafnframt því að vera réttlætismál verið áhrifaríkt og nauðsynlegt stýritæki í okkar efnahagsmálum. Það skiptir ekki minna máli.

Það er bullandi óánægja með núverandi kerfi. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir gat um tvo meginþætti þeirrar óánægju. Annar er sá að menn telja að núverandi kerfi stuðli ekki að nægjanlega góðri umgengni um auðlindina. Hinn er sá að með því kerfi sem við höfum nú, þ.e. að við gefum aðganginn en leyfum mönnum síðan að versla eða leigja frjálst, þá færist rétturinn til afnotanna, sem menn kalla nú orðið eign, yfir á æ færri hendur. Gegn þessu síðarnefnda er verið að bregðast með þáltill. og við því verður að bregðast. Varðandi hitt vil ég í framhjáhlaupi geta þess að því miður er það að fiski sé hent í sjóinn ekki bara að gerast í núverandi kerfi. Það hefur ávallt gerst að þeim fiski hefur verið hent sem menn hafa af ýmsum ástæðum ekki talið rétt að koma með að landi og lögin hafa gert ráð fyrir því að sá fiskur sem ekki er markaðsvara komi ekki að landi. En þetta er mál sem þarf að fara í vegna þess að það er sama hvaða stýrikerfi við notum við veiðarnar. Við því verður að bregðast með sérstökum hætti.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ræddi um það hér áðan að veiðileyfagjald mundi verða skattheimta á landsbyggðina. Það var vitnað til þess að sá virti hagfræðingur Gary Becker hefði talið veiðileyfagjald réttláta leið. Hann segir að veiðikvótahafar séu á ríkisstyrk og það sem ég hef sagt og fram hefur komið hjá öðrum undirstrikar það. Þeir eru á ríkisstyrk. En hann segir líka að þegar menn tali um þær klyfjar sem þetta setji á sjávarútveginn þá sé gjarnan bent á það að menn séu að versla með þetta nú þegar sín í millum. Það hefur komið fram í umræðunni og menn segja að þá séu til peningar og ég segi við ykkur: Ég sé það að mínir heimamenn fyrir norðan eiga peninga til að kaupa kvóta og það hafa menn orðið varir við og menn segja: Þá er þetta áfram innan greinarinnar og þá er það í lagi. Um það segir hinn virti hagfræðingur, með leyfi forseta:

,,Einmitt. Það er innan greinarinnar svo þeir sem upprunalega fengu kvótann fá peningana. Þeir sem reyna að komast inn í greinina verða að greiða fyrir kvótann, færa þeim fé sem í upphafi fengu hann afhentan frítt. Nýir menn í atvinnugreininni borga fyrir réttinn. Þeir sem fengu kvótann í upphafi eru þeir einu sem hlutu ríkisstyrk.``

Þá komum við að þessu með landsbyggðina og skattheimtu á landsbyggðina. Skattheimta hefur í þessari umræðu verið afskaplgea teygjanlegt hugtak og teygð og toguð í allar áttir og ég ætla að halda áfram að gera það í bland við það sem hér hefur áður komið fram. Það er ákveðin skattheimta á landsbyggðina að áhugasamir aðilar skuli þurfa að kaupa sig inn til þess að geta komist inn í sjávarútveg og þeir skuli þurfa að kaupa þann rétt af mönnum sem fengu honum úthlutað ókeypis.

Það er líka og hefur verið ákveðin skattheimta á landsbyggðina, og þá kem ég að hinum efnahagslega þætti, þegar það hefur gerst að raungengi hefur hækkað vegna þess að vel hefur árað í sjávarútvegi en gengið hefur gjarnan verið skráð fyrst og fremst með tilliti til sjávarútvegsins. Þegar vel hefur árað í sjávarútvegi þá hefur hann drepið af sér arðar greinar. Þeir veikburða tilburðir til annarrar atvinnustarfsemi sem hafa verið fyrir hendi hafa koðnað niður. Þegar gengið hefur síðan verið fellt þá höfum við úti á landsbyggðinni staðið eftir með frystihúsið eitt. Allt annað er gersamlega búið að vera eða við það. Þetta er ákveðinn skattur, þetta er byggðastefna sem ég vil ekki sjá. Og ég vil gjarnan fá að heyra hvernig þeir flokkar sem geta ekki fellt sig við veiðileyfagjald sem aðferð annaðhvort til réttlætis eða sem efnahagsstjórnun og helst sem hvort tveggja, hvernig þeir ætla að standa við það sem stendur í þeirra stefnuskrá, annars vegar um sveiflujöfnun og hins vegar um að jafna aðstöðu atvinnugreina. Ég hef ekki komið auga á hvernig það er hægt með öðrum hætti en að leggja á veiðileyfagjald en ég vildi gjarnan heyra hugmyndir annarra.