Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:18:41 (979)

1995-11-17 12:18:41# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:18]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. fer villur vegar í útúrsnúningum sínum því að tillagan lýtur ekki að skattlagningu á söluhagnað af aflaheimildum. Hún lýtur að því að leggja á almennan auðlindaskatt. Ég veit ekki betur en hagnaður af sölu veiðiheimilda sem fram fara í dag sé skattlagður eins og annar söluhagnaður. Ef það er ekki gert þarf hæstv. fjmrh. að bæta úr því. Það er auðvitað svo eðlilegt og sjálfsagt að greiða skatt af slíkum söluhagnaði að annað væri með meiri háttar mistökum ef íslensk skattalög væri ekki framkvæmd eðlilega að því leyti. Auðvitað verður sama regla að gilda í skattheimtu gagnvart útgerðinni og öðrum aðilum og ég vona sannarlega að hæstv. fjmrh. geti staðfest að skattur sé greiddur af söluhagnaði þegar verið er að kaupa og selja veiðiheimildir. Um það er enginn ágreiningur.