Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:20:49 (981)

1995-11-17 12:20:49# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:20]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég minni hv. þm. á að hann var að tala um óréttlæti sem væri fólgið í því að menn gætu keypt og selt aflaheimildir án þess að af þeim hagnaði væri borgaður skattur. Það er nákvæmlega það sem hann sagði. Ég kom hér og sagði að það ætti að borga af því skatt og ég geri ráð fyrir að íslensk skattalög séu þannig að það sé greiddur af þeim skattur. Hv. þm. getur ekki hlaupið þannig frá eigin orðum þó hann flytji hér tvær ræður en ekki eina.

Svo er það auðvitað óttalegur útúrsnúningur og hálflítilmannlegur málflutningur að núa mönnum því um nasir að þeir séu einhverjir miðstýringarmenn þó að þeir hafi ekki í einu og öllu viljað fara eftir duttlungum formanns Alþfl. enda sýnir fylgi flokksins það að þjóðin hefur ekki mikla trú á þeim flokki. Kjarni málsins er þessi: Flutningsmennirnir leggja til að það verði lagður á skattur til þess að fá réttlátari dreifingu á arðinum af því að hún sé réttlátari í höndum stjórnmálamannanna þegar um er að ræða afrakstur af sjávarútvegsfyrirtækjum en það á ekki við að þeirra mati þegar um er að ræða arð af annarri atvinnustarfsemi í landinu.