Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:27:27 (986)

1995-11-17 12:27:27# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:27]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér hafa verið viðraðar mjög margar góðar skoðanir og greinilegt er að menn hafa á þessu máli ýmsar skoðanir og mismunandi. Það er í þessu máli eins og mörgum öðrum að ekki er til neinn endanlegur sannleikur. Öll þau kerfi sem við erum að ræða um hafa kosti og galla.

Það sem aðallega stendur upp úr þegar menn ætla að stýra fiskveiðum er aflamark eða sóknarmark. Við höfum farið gegnum kosti og galla beggja þeirra kerfa. Aflamarkið leiðir því miður til allt of mikils brottkasts og sóknarmarkið er hættulegt vegna þess að sjávarútvegur er hættuleg atvinnugrein. Ef menn eiga að slást upp á mínútuna að ná í afla er hættan alltaf sú að kappið vaxi mönnum of mikið í kinn og þeir tefli á tæpasta vað varðandi öryggi.

Hér á landi hefur verið valið aflamarkskerfi og kerfið sjálft hefur reynst nokkuð vel í alþjóðlegum samanburði. Okkur hefur tekist að varðveita þessa auðlind okkar sem er náttúrlega fjöregg þjóðarinnar og að því leyti er kerfið gott.

Af hverju komu ekki upp umræður um kvóta og því um líkt fyrr á öldum? Þá greiddu menn ákveðið verð fyrir auðlindina sem var hættan. Verðið fólst í þeirri hættu að menn fóru á litlum bátsskeljum út á reginhaf að ná í fisk. Það urðu mikil slys og það var verðið sem greitt var áður fyrr. Nú er komin ný tækni sem gerir það að verkum að þetta er að verða miklu hættuminna og þá lendum við í því að þurfa að takmarka aðganginn.

Þeir aðilar sem koma að veiðum eru fyrst og fremst sjómaðurinn sem dregur aflann úr sjó. Það er útgerðarmaðurinn sem á bátinn sem hann siglir á. Það er verkafólkið í landi sem vinnur fiskinn. Það eru frystihúsin sem halda utan um þann rekstur og það eru sveitarfélögin þar sem aflinn kemur að. Þetta eru þeir aðilar sem koma að þessu. Hvaða aðila völdu menn af þessum fimm þegar kom að því að velja eigandann að þessu heila kerfi? Menn völdu af einhverjum ástæðum útgerðina. Af hverju? spyr ég. Af hverju ekki sveitarfélögin? Af hverju ekki fólkið í frystihúsunum? Af hverju ekki sjómanninn sem dró þó afla úr sjó? Eignarhaldið er einn aðalgallinn við núverandi kerfi en ekki kerfið sjálft.

[12:30]

Á bls. 3 í þáltill. er bent á sjö leiðir. Þær sjö leiðir eru mjög mismunandi og ein leið sker sig úr. Það er leið þrjú. Hún er ekki skattlagning. Allar hinar leiðirnar eru að einhverju leyti þannig að tekjurnar skulu greiddar inn í ríkissjóð. Að mínu mati er mjög hættulegt að láta ríkissjóð fá tekjurnar vegna þess að menn eru að tala um að lækka gengið o.s.frv. Þegar vel gengur í sjávarútvegi mun ríkissjóður afla mikilla tekna með þessum skatti sínum og ríkið mun byggja sjúkrahús og skóla og fara út í vegagerð og fjölga opinberum starfsmönnum. Svo gengur illa eitt árið. Haldið þið að ríkissjóður geti þá lækkað þennan skatt? Ónei. Hann mun fella gengið eins og hingað til og við munum upplifa nákvæmlega sömu sveiflurnar í atvinnulífinu sem rústar öllum öðrum iðnaði. Þetta er veikleikinn við það að hafa skattlagningu, þ.e. að afgjaldið renni til ríkissjóðs. En það er leið þrjú sem ég vil taka undir að gæti verið heppileg leið.

Herra forseti. Gallar núverandi kerfis koma sífellt betur í ljós. Sjómenn þurfa að borga fyrir kvótakaup. Af hverju? Við þekkjum regluna um tonn á móti tonni sem er nánast ólíðandi og við þekkjum að kvótinn er að erfast. Að sjálfsögðu falla menn frá og þá erfist þetta og hver segir að þeir flytji bara ekki úr landi og búi einhvers staðar í útlöndum, t.d. suður á Ítalíu og kvótinn lendi til fullt af bambinos sem þar búa? Er það virkilega það sem við Íslendingar viljum?

Mér líst miklu betur á leið þrjú sem gerir ekki ráð fyrir að ríkið hirði skattinn. Við þurfum að breyta núverandi eignarhaldi mildilega, ekki þannig að það sé tekið af um næstu áramót og punktur basta. Það mundi rústa sjávarútveginum. Þetta þarf að gera á 15 eða 20 árum. Það þarf að leyfa mönnum sem hafa núna þessa ,,eign``, sem rætt var um áðan, að afskrifa hana á um 20 árum. Það mundi verða mildilegt því að í lífi fyrirtækja og einstaklinga eru 20 ár nánast óendanleg en í lífi þjóðar eru 20 ár stuttur tími. Við eigum að taka á þessum vanda, leyfa fyrirtækjunum að afskrifa eignina á 20 árum og um leið eigum við að dreifa henni á alla landsmenn. Sumir kunna að halda að það sé sósíalismi en ég tel það ekki vera því að það er einmitt einstaklingsframtakið að einstaklingurinn fái sína hlutdeild í kvótanum. Hver einasti maður sem búsettur er á landinu á að fá 1:260.000 af aflanum sem við eigum. Markaðsverð þessa kvóta í dag mundi vera um 75 þús. kr. á mann, litlu börnin líka. Þetta yrði gott fyrir barnmargar fjölskyldur. Það mætti ekki framselja eignarréttinn sjálfan, hann yrði bundinn búsetu. En veiðirétturinn á hverju ári yrði seljanlegur og hann ætti að selja á markaði og þegar vel gengur í sjávarútvegi mun sjávarútvegurinn borga hátt verð fyrir veiðileyfn og allir Íslendingar mundu halda jól. En þegar illa gengur munu landsmenn þurfa að sætta sig við lægra verð fyrir kvótann og þannig mun hið almáttuga ríki ekki halda uppi skattinum á auðlindinni heldur verður fjöldi aðila, sem eru að selja kvótann, að sætta sig við það verð sem sjávarútvegurinn getur greitt á hverjum tíma. Þá þarf ekki að fella gengið því ef það gengur verulega illa, lélegt verð í útlöndum, lækkandi verð o.s.frv. þá mun verðið á kvótanum lækka sjálfkrafa innan lands.

Þetta er ein hugmynd sem ég varpa fram. Ég segi ekki að þetta sé heilagur sannleikur, langt í frá, ekkert frekar en allar hinar tillögurnar. Það eru eflaust á þessu margir ókostir og margir kostir en ég held að menn þurfi áfram að leita að betri lausnum og meiri sannleika.