Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:35:15 (987)

1995-11-17 12:35:15# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:35]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er ólíku saman að jafna, opnum huga seinasta hv. þm. og ræðumanns, Péturs Blöndals, eða Heimdallarstælum hæstv. sjútvrh. og dómsmrh. sem hann sýndi af sér í umræðunni hérna áðan þar sem farið var á ystu nöf í málflutningi og kjarni málsins sniðgenginn eins og stíllinn er á þeim bæ.

Það mun vera um það bil áratugur frá því að Alþfl., fyrstur stjórnmálaflokka á Íslandi, gerði það að stefnuskráratriði sínu að taka bæri upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi. Síðan hefur mikil umræða farið fram innan flokksins um það mál, bæði út frá réttlætissjónarmiðum sem eru uppistaðan í þeim málflutningi sem býr að baki þessari þáltill., út frá hagfræðilegum röksemdum og reyndar einnig hagkvæmnissjónarmiðum.

Það er ánægjulegt út frá okkar bæjardyrum séð að smám saman hefur þokast í þá átt að aðrir hafa komið til stuðnings við þessi sjónarmið. Því hefur verið lýst yfir að þrír stjórnmálaflokkar á Alþingi Íslendinga eru nú fylgjandi þessari grundvallarstefnu. Það er vitað að talsmenn þessara sjónarmiða eru smám saman að verða áhrifameiri í öðrum flokkum líka. Það hefur t.d. komið fram á landsfundi Sjálfstfl. að þessar hugmyndir og þessi grundvallarsjónarmið eiga þar öfluga talsmenn og fylgi við slíkar tillögur hefur farið vaxandi. Það er kannski einna helst annars vegar í Framsfl., sem þarf ekki að koma á óvart þar sem varðstaðan um skömmtunarkerfi ríkisins er hvað sterkust, og í Alþb. sem tregðulögmálið heldur velli, en það kemur aftur á móti á óvart.

Ég sagði í umræðunum áðan að ekki væri nokkur vafi á því að veiðileyfagjaldtakan er það sem koma skal. Það er einungis spurning um tíma, hvenær tregðulögmálið brestur og hvenær seinustu móhíkanar skömmtunarkerfis og miðstýringar á vegum ríkisins verða að láta í minni pokann. Ég hygg að sú stund sé nær en margir ætla.

Ef við lítum á mál eins og t.d. landbúnaðarumræðuna, þar sem Alþfl. hefur gengið á undan öðrum í gagnrýni á miðstýrt og ónýtt ríkisforsjárkerfi, hafa menn löngum örvænt um að það takist að vinna bug á samtryggingarkerfi sérhagsmunanna og forsjárhyggjunnar í því kerfi. Engu að síður er alveg ljóst að þeir landbúnaðarkerfismenn hafa tapað sínu stríði. Það er einungis tímaspursmál hvenær uppgjöf þeirra verður endanlega innsigluð.

Ég rifja upp annað mál, þ.e. baráttu okkar alþýðuflokksmanna í tíð síðustu ríkisstjórna sl. 8 ár fyrir að afnema miðstýrða einokun í útflutningi, bæði að því er varðaði útflutning sjávarafurða á Bandaríkjamarkað og hina frægu einokunaraðstöðu SÍF. Það tókst með miklu harðfylgi að koma þessari einokun fyrir kattarnef og með þeim árangri að framkvæmdastjóri almenningshlutafélagsins SÍF skrifar nú hverja greinina á fætur annarri þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að það hafi verið mikill happafengur fyrir þá útflytjendur að losna við ,,einkaleyfið``.

Þannig hefur þokast í rétta átt á hverju málasviðinu á fætur öðru. Það er merkilegt að oftar en ekki er við að eiga mjög harðsvíraða sérhagsmunavörslu innan Sjálfstfl. sem byggir rök sín og grundvallarsjónarmið að öllu leyti á ríkisforræðissjónarmiðum, á varðstöðu um skömmtunarkerfi og á tortryggni og skilningsleysi á eðlilegum markaðssjónarmiðum. Þess vegna er það öfugmæli í þessari umræðu þegar hæstv. sjútvrh. reynir að haga orðum sínum á þann veg að hann sé að gagnrýna veiðileyfamálið út frá einhverjum markaðssjónarmiðum. Það er náttúrlega hin mesta fásinna.

Hin almennu rök eru afar vel skýrð í þessari tillögu. Þau eru svona: Ekki er um það deilt á Alþingi að auðlindin er eign þjóðarinnar. Það hefur verið staðfest með löggjöf. Það var jafnvel rætt í tíð fyrri ríkisstjórnar að taka af öll tvímæli um það með því að binda það í stjórnarskrá. Enginn treysti sér til þess að andmæla þeirri hugmynd. Þetta byggir á bæði siðferðilegum og hagfræðilegum rökum. Þegar tekið er upp aflamarkskerfi --- skömmtunarkerfi --- ríkið tekur að sér að úthluta mönnum réttinum, veiðiheimildunum, þá fá þær verð, þær verða verðmæti. Þar með er komið á ríkisskömmtunarkerfi, tilfærsla á gríðarlegum fjármunum og hætta á stórkostlegri mismunun.

Það er rétt sem hefur verið rifjað upp og vitnað í hinn bandaríska hagfræðing Becker, að þegar svo háttar til, þá er ríkið í gegnum skömmtunarkerfi að mismuna aðilum. Þeir einstöku aðilar, sem fengu sínar veiðiheimildir ókeypis og selja þær, hagnast á þeim. Þeir geta farið með þann hagnað út úr greininni. En aðrir sem vilja hasla sér völl í greininni þurfa auðvitað að kaupa sig inn í þessa atvinnugrein.

Þegar svo háttar til er það bæði af siðferðilegum og hagfræðilegum ástæðum rétt og skynsamlegt að ríkið úthluti ekki þessum verðmætum, þessu fémæti, ókeypis heldur taki fyrir það gjald, enda er það bein afleiðing af eignarrétti þjóðarinnar sem löggjafinn hefur lýst yfir.

Sú fullyrðing að þetta sé skattlagning endar oft í orðhengilshætti. Staðreyndin er sú að hér er skömmtunarkerfi. Staðreyndin er síðan sú að það fara fram viðskipti með þessi fémætu réttindi --- kvótana. Menn standa ekki jafnt að vígi. Menn lúta ekki almennum reglum vegna þess að sumir hafa fengið þessi fémæti ókeypis, aðrir hafa keypt þau. En þessi viðskipti fara fram. Þau nema gríðarlega háum upphæðum. Þess vegna er ekki rétt þegar menn segja að það sé verið að taka upp skattlagningu með veiðileyfagjaldinu. Verðlagningin fer fram á markaðnum. Menn borga nú þegar háar fjárhæðir fyrir veiðileyfi en ekki til löglegs eiganda auðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar. Hvaða áhrif mundi veiðileyfagjaldtaka hafa á þá markaðsverðmyndun? Hún mundi auðvitað hafa áhrif á þá markaðsverðmyndun. Hvort hún mundi auka hana í heild sinni fyrir greinina er enginn kominn til með að fullyrða.

Að þetta sé einhver skattur, sérstaklega á landsbyggðina, er bara frasi. Þetta gjald á að vera almennt. Það eiga allir í greininni að sæta því og skiptir í því efni engu máli hvar útgerðarfyrirtækið er rekið. Því er við að bæta að þetta er stærra mál, þ.e. ef menn vilja nota jafnframt tækifærið til þess að koma á almennum og eðlilegum sambúðar- og samkeppnisskilmálum milli atvinnugreina, þá er unnt að gera það með því að haga gengisskráningunni í samræmi við það þegar þetta gjald er innleitt. Það er alveg sérstakt mál. Það er einfaldlega spurning um það hvort Ísland ætlar að vera verstöð til eilífðar eða hvort við ætlum að skapa skilyrði fyrir aðrar atvinnugreinar til þess að þrífast við hliðina á sjávarútveginum.

Það eru öll rök, siðferðileg rök, hagfræðileg rök, efnahagsleg rök sem mæla með því að veiðileyfagjaldið verði tekið upp. Sér í lagi ætti skynsemin að kenna hæstv. sjútvrh., sem er einn helsti talsmaður aflamarkskerfisins, það að ef hann vill fá einhverja sátt um aflamarkskerfið þá verður hún aldrei fyrr en framsalsréttindum verður fylgt eftir með veiðileyfagjaldtöku.