Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:57:48 (993)

1995-11-17 12:57:48# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:57]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Mér þykir rétt að bæta aðeins við það sem fram kom í máli mínu í fyrri ræðunni, einkum í ljósi þess sem fram hefur komið síðar í umræðunni.

Ég vil fyrst árétta það að óréttlætið sem fólki svíður er að útgerðarmenn geti selt það sem þeir eiga ekki, fyrir gjald sem þeir fá sjálfir gjaldfrítt. Hins vegar mega menn ekki draga of víðtækar ályktanir af þessari skoðun. Að mínu viti minnkar það ekki óréttlætið ef menn innheimta gjald í upphafi, en leyfa síðan útgerðarmönnum að selja við hærra gjaldi en þeir þurfa að borga þegar þeir taka við aflaheimild frá ríkinu. Þá selja þeir með hagnaði, sem er væntanlega óréttlætið sem mönnum svíður. Menn hagnast á sölu á því sem þeir eiga ekki. Haldi menn fram óréttlætissjónarmiðinu, þá geta menn ekki fallist á að frjáls verslun með veiðiheimildir fari fram á þeim grunni að menn geti hagnast á þeirri sölu. Það má þá ekki vera hin almenna regla.

Þá hljóta menn með öðrum orðum að ætla að gjaldið í upphafi frá ríkinu til útgerðarmannsins verði að vera nokkuð hátt þannig að tryggt sé að meðaltali að ekki sé um að ræða hagnað á einstökum viðskiptum. Mér sýnist að þannig hljóti þetta að enda ef menn gefa sér þá forsendu að leysa úr óréttlætisvandamálinu.

Þá kemur upp annað mál sem ég hef ekki heyrt menn minnast á. Það verður gríðarleg breyting ef menn fara út á þá braut að selja allar veiðiheimildir. Þótt veiðiheimildir gangi í dag kaupum og sölum, hvort sem þær eru varanlegar eða ársheimildir, þá er eftir sem áður langstærstur hluti úthlutaðra veiðiheimilda til útgerðarmanna ekki seldur. Þannig að sú breyting að fara að borga fyrir allar veiðiheimildir yrði gríðarleg og sér í lagi mundi hún hafa mikil áhrif í útgerðarbæjum.

[13:00]

Við skulum taka sem dæmi Ísafjörð. Gefum okkur að þar séu að meðaltali 10 þús. þorskígildislestir, eins og það heitir, samanlagðar veiðiheimildir á þeim stað. Við skulum gefa okkur að ríkið leigi veiðiheimildina eða þorskígildistonnið á 50 kr. Það er áætlað verð sem við getum sagt að yrði ólíklegt til að stuðla að því að framhaldssala yrði með ábata. Þá er verið að tala um að þessi útgerðarstaður leggi í skatt til ríkissjóðs 500 millj. kr. á ári hverju. Hvað fengi hann til baka af þessum 500 millj. sem hann legði inn í ríkissjóð? Hann fengi kannski 1% eða 5 millj. Þarna værum við að rýra stöðu þessa útgerðarsamfélags um nærfellt 500 millj. Hverjir eru það sem verða af þessum tekjum? Það eru t.d. sjómenn, það er fólkið sem vinnur við fiskverkun í landi eða í kringum útgerðarfyrirtækið og vinnslufyrirtækin. Þetta eru þeir sem yrðu af tekjum vegna þessa nýja kostnaðarliðar. Ég tek undir það sjónarmið hæstv. sjútvrh. að menn eiga að sjálfsögðu að gæta hagsmuna þessa fólks. Við getum ekki verið sérstakir talsmenn fjármagnsins einvörðungu í þessari umræðu, en skilið fólkið eftir. Meira að segja hreyfing fólksins má gjarnan muna eftir því að það er fólkið sem ræður þessu þjóðfélagi, eða á að ráða, en ekki fjármagnið. Ég vil því vara mjög við framgangi hugmynda af þessu tagi, a.m.k. eins og þær hafa verið fram settar.

Ég vil svo draga fram tvennt sem hefur vakið athygli mína í umræðunni og ég lít á sem nokkuð stór tíðindi fyrir ýmsa hér á landi. Það er í fyrsta lagi að talsmenn tveggja flokka hafa lýst yfir andstöðu við sjómannaafsláttinn. Þar er annars vegar um að ræða formann þingflokks Kvennalistans og hins vegar varaformann Sjálfstfl. sem hér hafa báðir komið upp og talað á móti sjómannaafslætti, sem hefur verið þjóðarsátt um. Honum er ætlað að stuðla að því að hæfir menn fáist í útgerð. Þetta er erfitt starf og til að fá menn til að sinna því býðst þeim skattaívilnun og svo hefur lengi verið. Það er greinilegt að sú þjóðarsátt sem verið hefur um þetta mál er að bresta og hún er að bresta hjá þessum tveimur flokkum, þótt ég haldi því ekki fram að hæstv. sjútvrh. sé sammála hæstv. fjmrh., varaformanni Sjálfstfl., í þessu máli. Enda gerði fjmrh. sér erindi í andsvar við ræðu sjútvrh. til að undirstrika hversu ósammála þeir væru í málinu. Þetta finnst mér mjög til tíðinda í þessari umræðu.

Í öðru lagi lýsa fulltrúar Kvennalistans yfir stuðningi við veiðileyfagjaldið og hafna stefnu Kvennalistans til margra ára um byggðakvóta. Nú er sú stefna endanlega út af borðinu hjá þeim flokki.

Í þriðja lagi lýsir hæstv. fjmrh., varaformaður Sjálfstfl., yfir því að sjávarútvegurinn eigi að borga kostnað við stofnanir vegna sjávarútvegs, eins og Hafrannsóknastofnun o.fl. Mér finnast það mjög alvarleg tíðindi ef vísindastarfsemi og rannsóknastarfsemi í atvinnugrein á að vera rekin af hagsmunaaðilum. Það er ekki bara hægt að láta þá borga, því að móti því að þeir borgi hlýtur að koma að þeir eigi að ráða líka. Ég er ekki tilbúinn að samþykkja þessa stefnu og er andvígur henni alveg eins og við alþýðubandalagsmenn vorum fyrir þremur árum, þegar hér var gerð tillaga í fjárlagafrv. um að láta sjávarútveginn borga þennan kostnað að mestu leyti. En það tókst að svíða það út úr fjárlögunum og ég vænti þess að þetta þing beri þá gæfu að komast að sömu niðurstöðu og stöðva ásælni hæstv. fjmrh. hvað þetta varðar.

Fleira merkilegt hefur komið fram í þessari umræðu sem vert væri að ræða og skiptast á skoðunum um, en tíminn er takmarkaður. Þetta hefur þó verið fróðlegt það sem af er, þannig að ég læt þetta duga að sinni, virðulegi forseti.